Láttu ekki flá þig í Noregi
16.06.2005
Noregur er það Evrópuland sem harðast tekur á þeim sem aka yfir hámarkshraðamörkum. Hámarkshraðamörk eru með þeim lægstu í álfunni en sektir þær allra hæstu. Nú kreppa norsk yfirvöld enn frekar hnefann framan í ökumenn sem fara yfir hámarkshraðamörk eins og þau eru á hverjum stað.
Mjög víða í vegaköntum eru „fuglahús“ eða kassar með hraðamyndavélum sem sjálfvirkt mynda þá bíla sem ekið er yfir hámarkshraða. Margir erlendir ökumenn, þeirra á meðal Íslendingar hafa fengið að finna til tevatnsins eftir að hafa lent á myndum úr „fuglahúsunum.“
Sem betur fer er tiltölulega auðvelt að koma auga á kassana meðfram vegunum og ökumenn komist upp á lag með að snögghemla niður um leið og þeir sjá kassana og verða fyrri til og ná að hægja á sér áður en myndavélin nær að smella af, en auka svo hraðann aftur þegar komið er framhjá kassanum. Nú ætla yfirvöld sér að vinna bug á þessháttar ökulagi og nýjar myndavélar og tækjabúnaður sem mælir meðalhraðann milli tveggja „fuglakassa“ verður kominn í notkun í Noregi um miðjan júlímánuð. Búnaðurinn tekur tímann sem það tekur bílinn að aka milli tveggja myndavélarkassa og tekur sá seinni mynd af bílnum.
Þessi nýi búnaður verður í fyrstunni settur upp í tilraunaskyni á vegi E6 í Guðbrandsdal, norðan við Lillehammer. Þar sem búast má við að búnaðurinn sé verður tilkynnt um hann með skiltum eins og því sem myndin hér að ofan er af. Ekki verður sektað út frá gögnum úr búnaðinum fyrsta kastið en ef tæknin virkar vel má búast við nýrri lagasetningu fljótlega með haustinu sem heimilar sektarinnheimtu út frá upptökum úr búnaðinum.
Viðurlög við hraðakstri í Noregi eru þau hörðustu í Evrópu. Ef ekið er 25 km yfir hámarkshraðamörk á vegum úti kostar það 55 þúsund ísl, króna sekt eða viku fangelsisvist.