Láttu ekki sekta þig í Austurríki
Ef þetta merki er ekki í framrúðunni á hraðbrautum Austurríkis þýðir það sekt upp á 12 þúsund ísl. krónur.
Þeir Íslendingar sem eru á leið til Austurríkis ættu að verða sér úti um hraðbrautamerki ef ætlunin er að aka eitthvað um. Austurríkismenn hafa alveg nýlega tekið upp rafrænt eftirlit (myndavélar) með því hvort bílar á hraðbrautunum séu með merkið í glugganum.
Hraðbrautamerkið er staðfesting þess að búið er að greiða veggjaldið. Vanti merkið getur sektin hæglega orðið 120 evrur eða rúmar 12 þúsund íslenskar krónur. Merki sem gildir í 10 daga kostar hins vegar einungis 580 krónur og þriggja mánaða merki kostar um 1.670 krónur
Páskarnir eru snemma í ár og þar sem mikill og góður snjór er í Ölpunum má búast við að margir Íslendingar bregði sér þangað í skíðaferð um páskana. Flestar bílaleigur geta útvegað hraðbrautamerkið eða þá vísað fólki á hvar það fæst. Merkin fást annars á öllum landamærastöðvum Austurríkis og á bensínstöðvum í grennd við landamærin. Auk þess er hægt að nálgast þau í vefverslun FDM í Danmörku, systurfélags FÍB.