Launafrysting hjá Vauxhall
Starfsmenn Vauxhall bílaverksmiðjanna í Ellesmere Port og Luton hafa samþykkt frystingu launa sinna næstu tvö árin meðan reksturinn verður endurskipulagður. Verkalýðsfélag þeirra hefur einnig samþykkt launafrystinguna og undirritað samning um hana við General Motors. Vauxhall er systurfyrirtæki Opel í Þýskalandi og Opel og Vauxhall bílar eru í flestum atriðum sömu bílar. Starfsmenn Opel hafa áður gert svipaðan launafrystingarsamning.
Í frétt frá General Motors segir að breski samningurinn nú muni spara fyrirtækinu 26,5 milljónir evra en markmiðið sé að draga úr útgjöldum hjá Opel og Vauxhall um samtals 265 milljón evrur. Auk þess er búið að segja upp 519 manns í verksmiðjunni í Luton þar sem Vivaro sendibíllinn er byggður, sem og á aðalskrifstofu Vauxhall. Engum hefur hins vegar enn verið sagt upp í Ellesmere Port því til stendur að færa alla framleiðslu á hinni nýju kynslóð Opel/Vauxhall Astra þangað. (sjá meðf. mynd). Hjá Opel í Russelsheim á hins vegar að framleiða eingöngu nýja kynslóð smábílsins Opel Corsa undir merkjum bæði Opel og Vauxhall.