Lausn inngjafarvandans hjáToyota?

Í Bandaríkjunum hafa fjölmiðlar nú birt skýringarmynd af bensín- (og olíu)gjafarvanda Toyota. Á teikningunni skýrist hver vandinn er og hvers vegna inngjafarfetillinn getur stirðnað og jafnvel orðið fastur í fullri inngjöf.  Einnig er sýnt hvað gert verður til að koma í veg fyrir að þetta geti gerst. Sérstök styrkingarplata á að koma í veg fyrir að núningsfletir aflagist og gangi á mis og fetillinn þannig stirðni eða festist.

http://www.fib.is/myndir/Toyota_pedallagning.jpg
 

Mikið var um málið fjallað í morgunþáttum bandarískra ljósvakamiðla í gær og margar sögur sagðar af stirðum bensíngjafarfetlum. Jim Lentz sölustjóri Toyota í Bandaríkjunum kom fram í Today Show hjá NBC og baðst afsökunar fyrir hönd Toyota á þeim áhyggjum og ótta sem málið hefur vakið meðal eigenda Toyota bíla.

Jim Lentz fullyrti að nú væri lausnin fundin og sýndi teikninguna sem birtist með þessari frétt því tll staðfestingar. Samkvæmt henni dugar að festa málmplötu við plast-rofahús inngjafarfetilsins sem styrkir það þannig að það getur ekki aflagast. Þar með á hættan á misgengi núningsflatanna og stirðnun að vera úr sögunni.

Það mun taka um hálftíma fyrir bifvélavirkja að taka fetilinn úr, festa plötuna við plasthúsið og setja svo fetilinn aftur í bílinn. Slík hálftíma vinna við þann gríðarlega fjölda bíla sem um ræðir er augljóslega afar dýr, ekki síst í því ljósi að  allur bensínfetillinn kostar hjá undirframleiðanda Toyota einungis um 15 dollara. Bílafjölmiðlar gera því skóna að undirframleiðandi bensínfetlanna sé einfaldlega ekki í stakk búinn að hrista fram úr erminni milljónir bensínfetla á einu bretti, si svona. Þessvegna sé styrkingarplatan lausnin, í fyrstunni í það minnsta.

En bílablaðamenn minnast í þessu sambandi á ekki ósvipað mál sem kom upp hjá Audi undir lok síðust aldar. Í framhaldinu voru stjórntölvur Audi bíla forritaðar þannig að þær leyfa aldrei vélinni að vera í fullri vinnslu um leið og hemlað er. Það þýðir ef bensíngjöf festist í botni, þá slær tölva bílsins bensíngjöf til vélarinnar af um leið og ökumaðurinn snertir hemlafetilinn.