Leifsstöð í Keflavík seilist í vasa bifreiðaeigenda

The image “http://www.fib.is/myndir/Loftmynd.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Allmargir félagsmenn í FÍB hafa snúið sér til félagsins vegna þess að frá 10. maí sl. voru tekin í notkun gjaldhlið inn á skammtímabílastæðin við flugstöð Leifs Eiríkssonar. Hefur fólk lent í miklum töfum vegna þess að nýja fyrirkomulagið hefur komið þeim í opna skjöldu gjaldhliðin, innkeyrsla að þeim, útgönguleiðir og greiðslufyrirkomulag er illa merkt og illa kynnt. Þessar tafir hafa í mörgum tilfellum tekið lengri tíma en tekur að aka úr höfuðborginni til flugstöðvarinnar sem auðvitað er óviðunandi. Harla lítið hefur farið fyrir kynningu á þessari nýju gjaldtöku en sagt er frá henni í frétt frá 29. apríl á heimasíðu flugstövarinnar, www.airport.is, sem seint telst til víðlesnustu heimasíða landsins.
Félagsmaður einn fór í Leifsstöð nýlega til að taka á móti öldruðum fjölskyldumeðlimi sínum sem var að koma með kvöldflugi frá einu Norðurlandanna. Þegar að Leifsstöð kom þurfti hann að bíða í bílabiðröð í 15 mínútur eftir að komast inn á skammtímabílastæðið við komudyr stöðvarinnar. Hann náði þó að leggja bílnum í tæka tíð áður en komufarþegann þryti þolinmæðin og stigi inn í rútuna. En þegar kom að því að aka út af stæðinu tók önnur korters bið við því að löng biðröð var við útkeyrsluhlið þrátt fyrir að einn ungur maður væri þar til að leiðbeina fólki með að borga hundrað kall fyrir örstuttan stans og komast í burtu. Þessi biðröð myndaðist þrátt fyrir að einungis tæpur þriðjungur stæðanna hafði verið upptekinn skömmu áður. Þegar ástand sem þetta myndast þarna undir miðnætti á virkum degi er augljóst að á háannatímum snemma morguns og síðdegis hlýtur það að verða miklu verra. Þeir sem ráða ferðini þarna suður í Leifsstöð fá ekki háa einkunn fyrir þjónustulund og skilvirkni. Ástand eins og það sem félagsmaður FÍB lýsir er einfaldlega fyrir neðan allar hellur. Það er ekki réttlætanlegt að það taki sama tíma að aka frá höfuðborginni að flugstöðinni eins og það tekur að aka inn og út af bílastæðinu.
Skattlagning
Ekki er hægt að kalla þessa gjaldtöku annað en skattlagningu þessarar ríkisstofnunar sem flugstöðin er, á þá sem stutt erindi eiga í flugstöðina, t.d. til að taka á móti fólki að koma til landsins eða að skila fólki í flug. Þessi skattur er eingöngu lagður á þá sem kjósa að koma að flugstöðinni á einkabílum. Ekki leggst hann á leigubíla eða rútur. Þessi bílastæðaskattur er til viðbótar við aðra skatta sem notendur þessarar flugstöðvar greiða í formi lendingargjalda og flugvallarskatts ofan á verð hvers farmiða.
Í fyrrnefndri frétt um bílastæðagjöldin á heimasíðu Leifsstöðvar segir að gjaldtakan sé......„til að stuðla að því að fólk sem staldrar stutt við fái stæði. Brögð hafa verið að því að farþegar á leið úr landi skilji bílana sína eftir á skammtímastæðum og taki þar með rými frá þeim sem fylgja farþegum eða sækja þá. Gjaldskyldunni er ætlað að stuðla að því að skammtímastæðin gegni betur hlutverki sínu.“
Við hjá FÍB höfum um langt árabil komið talsvert oft við í Leifsstöð og aldrei orðið þess vör að það væri eitthvert sérstakt vandamál að fá stæði á skammtímabílastæðunum. Ekki er hægt að segja að landþrengsli og dýrt land í kringum flugstöðina kalli á háa gjaldtöku af þeim sem staldra stutt við í Leifsstöð. Hafi verið brögð að því að einhverjir legðu bílum sínu á skammtímastæðin og færu í ferðalag til útlanda, þá er það vægt sagt heldur ómerkileg réttlæting þess að rukka alla aðra um hundrað kall á klukkutímann þarna og valda stórtöfum og vandræðum í leiðinni.