Leitað að kaupendum á Smart
01.01.2006
Dieter Zetsche, nýlega ráðinn forstjóri DaimlerChrysler hefur ráðið ráðgjafarfyrirtækið Goldman Sachs til að fara í saumana á fyrirtækjum og hagsmunaaðilum sem sýnt hafa áhuga á því að kaupa Smart bílaframleiðsluna af DaimlerChrysler.
Þrátt fyrir að Smart hafi aukið söluna um 3,8 prósent á árinu 2005 miðað við árið á undan þá var enn tap á rekstrinum. Í upphafi síðasta árs var farið út í miklar hagræðingaraðgerðir og niðurskurð hjá Smart til að reyna að rétta við reksturinn. Meðal þess sem varð fyrir niðurskurðarhnífnum var sportbíllinn Smart Roadster og hætt var við nokkrar aðrar gerðir sem sumar voru fullhannaðar og –prófaðar og tilbúnar til að fara á markað. Þessa stundina er mikil áhersla lögð á að hanna og hefja framleiðslu á arftaka litla tveggja manna bílsins Smart Fortwo sem enn hefur algera sérstöðu á bílamarkaðinum. Alls voru byggð 143 þúsund eintök af honum á síðasta ári og hvorki meira né minna en 40 þúsund stykki seldust á Ítalíu.
Dieter Zetsche hefur ekki farið í launkofa með það að menn hugleiði í alvöru að losa sig við Smart. Hann sagði þó á bílasýningunni í Detroit í gær að menn vildu þó í lengstu lög halda í vörumerkið og ná rekstrinum upp fyrir núllið, en gengi það ekki nógu fljótt fyrir sig væri ekki annað til ráða en að losa sig við Smart.
Markaðsglöggir bílablaðamenn segja að hæpið sé að DaimlerChrysler geti selt Smart með hagnaði heldur sé hið gagnstæða líklegra. Þeir telja sig einnig sjá þess merki að Kínverjar hafi áhuga á að eignast Smart ekki síst af því að merkið hefur vissulega náð tryggri fótfestu á Evrópumarkaði. Þeir sjái sér því leik á borði að flytja framleiðsluna til Kína og ná þannig framleiðslukostnaðinum verulega niður og hagnast á öllu saman.