Lífræn dísilolía á Formúlu 1 bílana?
Max Mosley, forseti FIA hefur boðað til fundar með bílaframleiðendum innan Formúlunnar um hugsanlegar breytingar á reglum varðandi vélar í Formúla 1 bílum. Fundurinn verður haldinn í Monaco í tengslum við næstu keppnislotu í Formúlunni sem þar mun fara fram.
Þótt ekkert hafi verið opinberlega gefið upp um efni fundarins þykir ljóst að það snúist um þá hugmynd sem forsetinn, Max Mosley hefur viðrað í nýjasta tölublaði tímaritsins F1 Racing um að vélarnar í F1 bílunum verði framvegis 2,2 lítra V6 túrbínudísilvélar sem keyri á lífrænni dísilolíu og snúist ekki hraðar en 10 þúsund snúninga á mínútu. Það er jafnframt hugmynd forsetans að skylt verði að nota sömu vélina í minnst fimm keppnislotum Formúlunnar í röð.
Af öðrum hugmyndum sem líklegt þykir að verði ræddar á fundinum er notkun stöðugleikabúnaðar I bílunum og notkun fjórhjóladrifs og búnaðar sem eykur tímabundið afl vélanna við t.d. framúrakstur.
Mörgum finnst sem Formúlan sé sjálf birtingarmynd bílamennsku af ósvífnasta tagi þar sem menn tæta og trylla og spúa mengunarefnum út í andrúmsloftið. Það kann því að koma þeim spánskt fyrir sjónir að uppi séu hugmyndir um lífræna og sjálfbæra orku til að knýja keppnisbílana.
Því er rétt að geta þess hér að mörg undanfarin ár hefur allur akstur í Formúlunni verið kolefnisjafnaður á þann hátt að eftir hvert keppnistímabil eru keypt upp landsvæði í regnskógum S. Ameríku í því skyni að bæði koma í veg fyrir að skógum þar verði eytt og til að endurheimta landsvæði sem rudd hafa verið og planta þar skógi á ný.