Lífrænt eldsneyti verði tíundi hluti alls bílaeldsneytis

 http://www.fib.is/myndir/Biodiesel.jpg
Samtök þýska bílaiðnaðarins, Verband Deutsche Automobilindustrie, VDA, gengust nýlega fyrir fundi helstu leiðtoga og fræðimanna innan greinarinnar um eldsneyti og eldsneytisnotkun í náinni framtíð. Niðurstaða fundarins varð sú að auka skuli hlutfall lífræns bílaeldsneytis – bensíns og dísilolíu -  í Þýskalandi upp í minnst 10 prósent fram til ársins 2010. Markmið Evrópusambandsins í þessu efni er mun hæverskara eða 5,75 prósent. Það töldu menn alls ekki nóg.

DaimlerChrysler hefur kynnt svokallaða Bluetec dísilvélatækni sem á að skila enn virkari og hreinni bruna og þar með minni mengun en áður. DaimlerChrysler hyggst leggja aukna áherslu á dísilvélarnar og á fundinum kom fram hjá talsmönnum fyrirtækisins að ef hlutfall dísilknúinna bíla væri jafn hátt í Þýskalandi eins og það er í Frakklandi myndi fimm milljón tonnum minna af koltvíildi berast út í andrúmsloftið. Einungis eins prósents hlutfallshækkun dísilfólksbíla í landinu jafngilti því að Þjóðverjar myndu í einu vetfangi hætta að nota 100 þúsund bensínfólksbíla.