„Lífrænt“ plast úr sykri og bambus

http://www.fib.is/myndir/Polypropylen.jpg

Plast unnið úr olíu er stór þáttur í bílaframleiðslu.

Plastefni eru flest unnin úr olíu og með síhækkanid olíuverði verður plast þar af leiðandi dýrara og dýrara. En plast er svo sem hægt að framleiða með ýmsu móti og hér á íslandi hafa meira að segja vísindamenn gert tilraunir með að láta bakteríur búa til plast. En nú hefur japanski bíla- og vélaframleiðandinn Mitsubishi kynnt „lífrænt“ plast sem framleitt er úr sykri og bambustrefjum.
Bílaiðnaðurinn stefnir leynt og ljóst að því markmiði að gera sig sem minnst háðan olíunni. Stór þáttur í því er að finna hagkvæmar aðferðir við plastframleiðslu án olíu og Mitsubishi segist nú í fréttatilkynningu hafa ásamt vísindamönnum við hina japönsku rannsóknastofnun, Aichi Industrial Technology Institute tekist að búa til plast úr jurtasterkju og bambustrefjum.
Nýja plastefnið er gert úr sterkju eða sykurefni frá sykurreyr sem kallast polybutylen-succinat, PBS. Í það er svo blandað bambustrefjum til styrkingar í stað koltrefja. Þetta nýja lífræna plastefni verður notað í nýjan hugmyndarbíl sem kynntur verður í Japan á næsta ári. Við framleiðslu þessa „græna“ plasts verður til um helmingi minna koltvíildi heldur en við framleiðslu á venjulegu polyprópýlen plasti úr olíu, en það er algengasta plastefnið í bílaiðnaðinum.