Lífsstílspallbíll!
Mazda BT-50 er glænýr pallbíll sem sagður er vera á leiðinni á markað fljótlega. Í það minnsta verður bíllinn heimsfrumsýndur á bílasýningu í Sidney í Ástralíu 15. október nk.
Lítið hefur lekið út í fjölmiðla um þennan nýja pallbíl og fáar myndir af honum fyrirfinnast, nema þá helst þær teikningar sem fylgja með þessari frétt Af þeim má ráða að hann verður bæði með einföldu og tvöföldu húsi og svo palli auðvitað, og mjög straumlínulagaður. Það litla sem Mazda hefur gefið út um bílinn er aðallega það að hann eigi að geta nýst sem fjölskyldubíll fólks sem tileinkað hefur sér virkan lífsstíl.
BT-50 er sagður léttur pallbíll sem hannaður hefur verið frá grunni með það fyrir augum að hafa aksturseiginleika sem bestu fólksbílar geti verið fullsæmdir af. En jafnframt því sé hægt að nota hann til að flytja ýmislegt með sér, t.d. hverskonar frístundabúnað eða verkfæri, sé maður nú iðnaðarmaður, eða hverskonar varning sem fjölskyldan þarfnast.
Hönnun bílsins er að sögn Mazda-fólks afskaplega flott og til þess fallin að gera eigandann stoltan af ökutæki sínu. Bíllinn sé fagurlega limaður myndskúlptúr sem helst megi líkja við vöðvastæltan líkama íþróttamanns. Fólk muni snúa sér við til að stara á eftir þessum eðalbíl þegar hann rennur hjá og sjá strax að þarna fer sko Mazda.
Skrúðmælgin um þennan nýja bíl er semsagt hvergi spöruð en inn í milli lýsingarorðanna sést þó að þetta verður heimsbíll, sem þýðir að hann verður falboðinn á öllum helstu markaðssvæðum heimsins og meira að segja líka í Evrópu, eins og það er orðað. En hvenær hann kemur á markað þar er ósagt látið.