Líkur benda til þess að umferð um Hringveginn aukist um 8-9%
Umferðin á Hringveginum í maí hefur aldrei verið meiri en í nýliðnum maímánuði. Eigi að síður er hraði aukningarinnar í umferðinni heldur minni nú en áður. Það stefnir í að umferðin í ár geti aukist um 8-9 prósent sem er gríðarlega mikið en slær samt ekki met.
Umferðin í nýliðnum maí jókst um 9,3% samtals yfir öll 16 lykilsnið Vegagerðarinnar á Hringvegi miðað við sama mánuð á síðasta ári. Mest jókst umferðin um mælisnið á Hringvegi um Austurland eða um 14,0% en minnst varð aukningin á Vesturlandi eða um 6,2%.
Umferðin jókst mest við Gíslastaðagerði á Austurlandi
Þó aukningin sé talsverð er þetta heldur hóflegri aukning en birst hefur það sem af er ári. Þegar rýnt er í einstaka talningastaði virðist aukningin þar mjög svipuð á milli staða. Mest jókst umferðin um talningarstað við Gíslastaðagerði á Austurlandi eða um 19,5%.
Umferðin hefur aldrei mælst meiri í nokkrum maí mánuði frá upphafi þessarar samantektar en alls fóru að meðaltali um 81 þúsund ökutæki á sólarhring um mælisniðin 16. Það sem af er ári hefur umferðin nú aukist um 12,5%, sem er aðeins minni aukning en á sama tíma á síðasta ári en samt sú önnur mesta frá upphafi samantektar.
Mest hefur aukningin í prósentum talið mælst um mælisnið á Austurlandi eða um 27,2% en minnst um Vesturland eða um 10,4%. Umferðin hefur aukist mest á fimmtudögum miðað við það sem af er ári en minnst á mánudögum eða um 7,8%. Mest er ekið á föstudögum og minnst á mánudögum.
Nú benda líkur til þess að umferðin geti aukist um 8 - 9% miðað við síðasta ár það yrði næst mesta aukning á milli ára ef gengi eftir, frá upphafi samantektar.