Lincoln betri en Lexus
J.D. Power í Bandaríkjunum hefur birt nýja gæðakönnun á þriggja ára gömlum bílum. Í henni gerast þau tíðindi að Lincoln hefur rutt Lexus úr efsta sætinu. Lincoln er þannig orðin sú tegund sem fæsta ágalla hefur og lægsta bilanatíðni.
Lexus hefur um margra ára skeið verið í sérflokki hvað varðar gæði og lága bilanatíðni í könnunum J.D. Power og vissulega er Lexus afbragðsbíll ennþá. En Lincoln hefur nú skotist í efsta sætið sem eru talsverð tíðindi þar sem bandarískum bílum hefur um langt skeið ekki vegnað vel í þessum könnunum hins bandaríska neytendatímarits.
Lincoln er sem kunnugt er lúxusmerki Ford, svipað og Cadillac er hjá GM. Ford í USA og GM sömuleiðis hafa mjög tekið sig á í gæðamálum eins og sást af sömu könnun J.D. Power í fyrra og í samskonar könnun neytendaatímaritsins Consumer Reports.
J.D. Power sendir út spurningalista til eigenda bílanna, vinnur úr svörunum og gefur bílunum síðan einskonar einkunnir út frá mælieiningunni PP100 sem stendur fyrir problem per 100 cars, eða vandamál á hverja hundrað bíla. Hvort eða hversu ágallarnir eru síðan alvarlegir er undir hælinn lagt. J.D. Power leggur ekki mat á það. Algengustu ágallar bíla að mati eigendanna teljast vart stóralvarlegir því að þeir eru vindgnauð, ískur í bremsum og blettir á lakki.
Meðaleinkunnin nú er PP151. Hún er sú hæsta sem nokkru sinni hefur mælst sem þýðir það að eigendur finna færri ágalla við bíla sína en nokkru sinni áður. Mestar framfarir frá síðasta ári sýna Suzuki, Land Rover, Scion og Volkswagen.
Fimm bestu bílamerkin í ár eru Lincoln, Lexus, Jaguar, Porsche og Toyota. Besta einstaka bílgerðin er Porsche 911 og hlýtur hann einkunnina PP68. Besti bílaframleiðandinn er Toyota, en Ford fylgir þétt á eftir. Saab sem var neðan við miðju í fyrra hefur nú sótt í sig veðrið og er kominn vel upp fyrir meðaltalið með einkunnina PP145. Volvo er hinsvegar undir meðaltalinu með PP156.