Lítið vart við bikblæðingar
Eftirlitsmenn Vegagerðarinnar hafa lítið orðið varir við bikblæðingar á Hringveginum á milli Borgarness og Akureyrar og því ekki ástæða til að letja fólk til ferðalaga þess vegna. Vegfarendur eru eigi að síður beðnir um að fara varlega og hafa varann á sér, leita upplýsinga á heimsíðu Vegagerðarinnar, á Twitter eða í síma 1777. Ástandið gæti breyst.
Útlit er fyrir heldur kólnandi veður sem gefur einnig betri von um að ástandið verði ekki aftur jafnslæmt og það var þegar það var verst var í byrjun vikunnar. Vegagerðini hafði í gær borist 59 tilkynningar um tjón á ökutækjum vegna blæðinganna og þar fyrir utan eru þrif á bílum sem ekki hafa skemmst. Áætla má að kostnaður við þrif og viðgerðir nemi tugum milljóna króna.
Eftir því sem fram kemur í Morgunblaðinu varð tjón á fjórtán flutningabílum Vörumiðlunar á Sauðárkróki, að sögn Magnúsar Einars Svavarssonar framkvæmdastjóra, og jafnmörgum aftanívögnum. Mesta tjónið varð á þeim bílum sem óku suður á sunnudagskvöldið og til baka á mánudaginn en minna á þeim sem fóru um vegina eftir það. Magnús segir að eftir sé að meta tjónið. Verið er að hefja þrif á bílunum en það er gert á verkstæðum sem Vegagerðin samþykkir.