Litlar breytingar á nýskráningum fólksbifreiða

Litlar breytingar eru á nýskráningum fólksbifreiða á milli vikna. Það sem af er árinu eru þær 36,9% minni en á sama tíma í fyrra. Nýskráningar fólksbifreiða eru nú alls 6.585 en í fyrra á sama tíma 10.435.

Bifreiðar til ökutækjaleiga eru 4.251 sem er um 64,6% af heildarskráningum. 2.280 bifreiðar eru til almennra notkunar. Þetta kemur fram í tölum frá Bílgreinasambandinu.

Af þessum tölum að dæma eru ný­skrán­ing­ar raf­knú­inna fólks­bíla á Íslandi um 74,6% færri á fyrstu 27 vikum ársins í samanburði við sama tímabil á síðasta ári. Nýskráningar hreinna rafmagnsbíla eru 998 það sem af er árinu en voru 3.981 yfir sama tímabil í fyrra. Þegar nýskráningar fólksbifreiða í öllum flokkum er skoðaðir er um 36,9% samdráttur í bílasölu eins og áður kom fram.

Flestar nýskráningar eftir orkuflokkum eru í hybdrid-bílum. Það sem af er árinu eru þær orðnar 1.609 sem er um 24,4% hlutdeild á markaðnum. Dísil-bílar koma í öðru sæti en nýskráningar í þeim flokki eru 1.508. Bensín-bílar koma í þriðja sæti með 1.403 bifreiðar. Tengiltvinnbílar eru alls 1.066 og rafmagnsbílar 998 talsins.

Þegar einstakar bílategundir eru skoðaðar eru flestar nýskráningar í Kia alls 1.000 bifreiðar. Hyundai er í öðru sæti með 909 bifreiðar og Toyota 850.