Litlar breytingar í nýskráningum fólksbifreiða
Þróunin í nýskráningum fólksbifreiða hefur verið með svipuðum hætti síðustu mánuðina. Nýskráningar fram að 16. ágúst voru 38,3% færri en á sama tíma í fyrra. Alls eru nýskráningar nú 7.435 en voru 12.057 á sama tíma á síðasta ári. Bifreiðar til ökutækjaleiga erum um 60% en til almennra notkunar 40%.
Hvað veldur þessum samdrætti velta eflaust margir fyrir sér. Í því sambandi er hægt að benda á að töluverðar verðhækkanir hafa orðið sem tengjast opinberum gjöldum á bifreiðar. Bifreiðagjald hækkaði fyrir rúmu ári um 50 prósent grunngjaldið, það hækkaði aftur um 30 prósent um seinustu áramót.Síðan lagðist á 5% vörugjald á alla bíla til viðbótar og loks kílómetragjaldið sem er nýr skattur sem tók til framkvæmda um síðustu áramót. Allt hefur þetta fælandi áhrif.
Þegar einstakir orkuflokkar eru skoðaðir eru flestar nýskráningar í Hybrid-bílum. Alls eru þær 1.768 sem er um 23,8% hlutdeild í heildarnýskráningum. Dísil-bílar koma næstir, alls 1.628 bifreiðar sem er um 21,9% hlutdeild. Bensín-bílar koma síðan í þriðja sætinu með 1.450 bíla sem gerir um 19,6% hlutdeild.
Hreinir rafbílar sem seldust mest á síðasta ári eru í dag með 17,6% hlutdeild en í þessum flokki hafa selst 1.307 bílar það sem af er þessu ári.
Kia er söluhæsti bíllinn, alls 1.107 bílar hafa verið seldir til þessa. Nýskráningar í Toyota koma í öðru sæti, alls 964 bílar. Í þriðja sæti er Hyundai með 960 bifreiðar.