Ljósaskiptirinn brátt úr sögunni?
Trúlega er ekki langt í það að ökumenn þurfi ekki að lækka ljósin þegar þeir mæta öðrum bílum í myrkri. Nú er komin fram ný tækni sem skermar af hluta af háa ljósgeislanum og hindrar að hann fari í augu ökumanna sem á móti koma og blindi þá. Þar með verður óþarfi að skipta af háa geislanum á þann lága þegar mæst er.
Frá þessu er greint á japönskum tæknifréttavef. Þar segir að nýjar aðalljósalugtir frá japanska fyrirtækinu Ichikoh Industries séu búnar þessum ágætu eiginleikum. Lugtirnar nefnast BeamAtic Premium.
Upphaflega kemur tæknin að baki þessum lugtum frá franska íhlutafyrirtækinu Valeo SA. Lugtirnar vinna í grófum dráttum þannig að vídeómyndavél framan á bílnum greinir umferðina á móti. Tölva greinir myndina og ljósmagnið og skýtur spjaldi inni í lugtinni fyrir þann hluta ljósgeislans sem annars færi beint í augu ökmannsins sem kemur á móti.
Þar með verður óþarfi að skipta niður ljósunum auk þess sem augun þurfa minna að hafa fyrir því að aðlaga sig að þeim mikla mun á ljósmagni sem er milli háa og lága geislans.
Þessi tækni er glæný en er væntanleg í nýjum bílum frá Japan áður en árið er úti. Framleiðandinn Ichikoh Industries er sagður vera í samningaviðræðum við japanska bílaiðnaðinn um að búnaðurinn verði staðalbúnaður í bílum sem byggðir verða í japan í framtíðinni.