Loftið skánaði ekkert
Árið 2010 setti borgarstjórn Gautaborgar í Svíþjóð á nagladekkjabann á tveimur fjölförnum götum í miðborginni; i Friggagatan og Odinsgatan. Tilgangurinn var að bæta gæði andrúmsloftsins. Loftmengun hefur verið mæld reglulega bæði fyrir og eftir bann og er niðurstaðan sú að nagladekkjabannið hefur engu breytt til hins betra. Gæði andrúmsloftsins hafa síst skánað, heldur þvert á móti versnað. Hið meinta beina samband milli loftgæða og nagladekkja undir bílum virðist því vera talsvert flóknara en nagladekkjabannsinnar hafa haldið fram og kenningin um nagladekkin og mengun af þeirra völdum haldi ekki vatni þegar á reynir.
Niklas Stavegård umferðarsérfræðingur hjá Motormännen, systurfélagi FÍB í Svíþjóð segir við MotorMagasinet í Svíþjóð að það sé löngu ljóst að nagladekkjabann sé ekki besta leiðin til að draga úr svifryksmengun í lofti mettuðu af heilsuspillandi PM10 efnasamböndum. Mælingarnar sem gerðar hafi verið á vegum borgaryfirvalda sjálfra sýni meira að segja að PM10-svifryksmengun í lofti mælist meiri eftir að bannið var sett á en hún var áður. Til viðbótar við það að nagladekkjabannið sé gagnslaust þá dragi það úr umferðaröryggi.
Á banngötunum tveimur sýna mælingarnar að eftir að bannið var sett á hafi bílum á negldum vetrardekkjum fækkað um helming. Á sama tíma hafi heildarumferð um göturnar umræddu minnkað um fjórðung. og enn til viðbótar banninu, þá hefur verið sprautað reglulega uppgufunarvörn á göturnar til að hindra að öragnir þyrlist upp. Því vekur það furðu að mengunin skuli hafa aukist en ekki minnkað á þessum götum.
Niklas Stavegård segir við MotorMagasinet að kominn sé tími til að borgarfulltrúarnir í Gautaborg hysji upp um sig og afnemi strax hið vita gagnslausa og háskalega nagladekkjabann. Nú verði að finna út úr því hvaðan mengunin komi. Loftgæðin séu sannarlega mikilvæg en ekki gangi að hunsa gersamlega umferðaröryggisþáttinn. Veðurfar að vetrarlagi í Gautaborg sé mjög breytilegt. Þar skiptist úrkoma og loftraki á við flöktandi hitastig sem skyndilega getur fallið niður fyrir frostmark og götur geti þar með orðið flughálar fyrirvaralaust.
– Þegar frostkaldir regndropar falla á jörðina og frjósa þar, myndast flughált íslag á jörðinni mjög skyndilega. Negld vetrardekk eru það eina sem hafa veggrip að gagni í slíku færi og bíll á 50 km hraða á negldum vetrardekkjum þarf 15 metrum styttri hemlunarvegalengd en bíll á ónegldum vetrardekkjum. Þess vegna á það að vera á valdi bíleigenda sjálfra að velja sér þau vetrardekk sem best hæfa akstri þeirra og aðstæðum og veita þeim öryggistilfinningu, segir Niklas Stavegård.