Loftpúðarnir hugsaðir upp á nýtt
Bandarískt fyrirtæki sem heitir TRW og framleiðir íhluti og tæknibúnað í bíla, hefur kynnt nýja gerð loftpúða sem taka minna rými upp í mælaborði bíla og stýri en nú gerist. Þessu ná menn með því að koma púðabúnaðinum fyrir í lofti bílsins við efri brún framrúðunnar. Þar með þarf stýrishjólið ekki að vera jafn fyrirferðarmikið í miðjunni eins og stýrishjól eru nú á dögum og nettu stýrishjólin frá fyrri tímum gætu komið aftur. Jafnframt er aftur hægt að endurheimta stóru hanskahólfin í mælaborðinu farþegamegin sem einu sinni voru svo algeng.
Jafnframt nýrri staðsetningu og lögun loftpúðanna hefur TRW þróað nýjan og ódýrari búnað til að blása loftpúðana upp. Í stað sprengihleðslunnar sem nú gerir það, er kominn mun ódýrari búnaður sem miklu minna kostar að endurnýja. Uppistaða nýja búnaðarins er lítill gaskútur með samanþjöppuðu óeldfimu og hættulausu gasi. Í frétt frá TRW segir að verið sé að þróa þennan búnað í samvinnu við stórt evrópskt bílaframleiðslufyrirtæki. Ekki er þess getið hvert fyrirtækið er. Þá er ekki vitað hvort eða hvenær nýja búnaðarins er von í nýjum bílum, en allt þróunar- og prófanaferli öryggisbúnaðar af þessu tagi tekur langan tíma.