Löggildar kvittanir í sjálfsafgreiðslu með dælulykli
Albert Þór Magnússon og Ólafía Ásgeirsdóttir.
Atlantsolía tók í lok síðustu viku í notkun nýja gerð kvittana frá sjálfsafgreiðsludælum félagsins. Nýju kvittanirnar fást þegar dælulykill FÍB og Atlantsolíu er notaður við sjálfsafgreiðslu á eldsneyti og sendir dælan þær sjálfvirkt í tölvupósti sem PDF-viðhengi til handhafa dælulykilsins. En það sem mestu máli skiptir er að þessar kvittanir eru viðurkenndar af ríkisskattstjóra sem löggildur sölureikningur.
Þetta er í fyrsta sinn sem ríkisskattstjóri samþykkir netkvittun af þessu tagi sem löggildan sölureikning. Þetta er jafnframt í fyrsta sinn í Evrópu sem netkvittun af þessu tagi er tengd dælulykli. Hagræði af þessari tækninýjung er augljóst fyrir þá sem nota bílinn í tengslum við atvinnuna og geta nýtt reksturskostnað hans sem frádráttarlið í skattaframtali.
Það var Ólafía Ásgeirsdóttir deildarstjóri hjá FÍB sem fyrst tengdist hinu nýja kvittanakerfi tengdu dælulykli FÍB og Atlantsolíu og á mynd Fréttablaðsins hér að ofan tekur hún við fyrstu löggildu netkvittuninni af Albert Þór Magnússyni framkvæmdastjóra Atlantsolíu.