Löggudraumur sem dó
Það er ekkert einfalt mál að hasla nýrri bíltegund völl svo hún nái traustri fótfestu á hörðum samkeppnismarkaði. Það reyndist ofviða nýju bandarísku fyrirtæki, Carbon Motors, sem ætlaði sér inn á bandarískan markað fyrir lögreglubíla með sérhannaðan, léttan, öflugan og sparneytinn lögreglubíl. Carbon Motors er nú gjaldþrota og hið eina sem fémætt finnst í þrotabúinu er eitt frumeintak lögreglubílsins E7. Það verður boðið upp á nauðungaruppboði sem dagsett er 23. janúar nk..
Sagt var frá þessum nýja lögreglubíl í frétt hér á FÍB vefnum í mars 2010. Þá voru forsvarsmenn Carbon Motors bjartsýnir enda töldu þeir sig vera með mjög góða og áhugaverða hugmynd að góðum lögreglubíl. En það dugði greinilega ekki til því að risarnir þrír í Detroit; GM, Ford og Chrysler brugðust við af hörku. Þeir höfðu einfaldlega lítinn áhuga á því að missa hinn áhugaverða og ábatasama lögreglubílamarkað úr höndum sér og buðu fram endurbætta bíla og tæknibúnað og hagstæðari verð.