Löglegir og ólöglegir barnabílstólar
16.05.2008
Evrópureglur um öryggisbúnað í bíla hafa nú verið hertar. Hvað varðar barnabílstóla hafa nýju reglurnar, sem gildi tóku þann 9. mai sl. þau áhrif að margir stólar sem hingað til hafa uppfyllt lágmarkskröfur og verið löglegir eru það ekki lengur.
Í mörgum ríkjum Evrópu eru viðurlög við notkun ólöglegra barnabílstóla sektir og punktar í ökuferilsskrá. Hér á landi gildir strangt til tekið það sama en lítil hefð er fyrir því hjá opinberum aðilum að skoða og fylgjast með barnaöryggisbúnaði. En verði slys er það næsta víst að það hafi áhrif á tryggingabætur hvort barnaöryggisbúnaður var löglegur eða ólöglegur.
Sem betur fer finnst flestum foreldrum og forráðamönnum það bæði sjálfsagt og rétt að gæta fyllsta öryggis þegar börnin eiga í hlut, ekki síst í bílnum. Þeir gæta þess að uppfylla siðferðilegar og lagalegar kröfur um öryggi og velferð barna sinna og útvega þeim þar með réttan og löglegan öryggisbúnað fyrir bílinn.
En hvernig geta ábyrgir foreldrar og forráðamenn séð hvort barabílstóllinn sé löglegur eða ekki? Jú, á E-merkingunni á stólnum. Mynd af merkingunni fylgir með þessari frétt.
Samkvæmt nýju Evrópureglunum skulu allir löglegir barnabílstólar vera E-merktir. Nýja merkingin er eins og sú sem hér sést. Í eldri merkingum sem oft eru með hvítu letri á svörtum grunni, skal standa ECE 4403 eða ECE4404. Ef þetta er ekki að finna á stólnum er hann einfaldlega ólöglegur. Ýmis önnur merki eins og t.d. DS-merki (Dansk Standard) eða sænska merkingin Vägverket (T) eru ekki lengur nóg.
„Barnastólar, -sessur og –púðar ganga oft í arf frá einu barni til annars og úr einni fjölskyldu til annarrar eftir því sem börnin vaxa úr grasi. Af þeim sökum vill FÍB hvetja foreldra og forráðamenn barna að kanna hvort sá barnaöryggisbúnaður sem í notkun er fyrir börnin á heimilinu, sé löglegur eða ekki og endurnýja ef búnaðurinn reynist úreltur. Samkvæmt nýju Evrópureglunum er sá barnaöryggisbúnaður sem ekkert merki fyrirfinnst á, einfaldlega ólöglegur.
Góður barnastóll skal hæfa aldri barnsins, stærð þess og þyngd. Hann er þannig byggður að hann á að vernda barnið verði árekstur, hvort heldur sem er framanfrá eða frá hlið. Hjá FÍB fæst eingöngu löglegur barnaöryggisbúnaður og FÍB mælir með því við alla þá sem eru að kaupa barnaöryggisbúnað í bílinn, að kaupa búnaðinn í sérverslunum með barnaöryggisbúnað þar sem tryggt er að um löglegan búnað sé að ræða og þekking er til staðar á sjálfum búnaðinum og hvernig skal festa hann rétt og tryggilega í bílinn.