Lögreglan í Sviss tekur rafbíla í sína þjónustu
Lögreglan í svissnesku kantónunni St. Gallen tók á dögunum í notkun þrettán nýja rafbíla af gerðinni Hyundai Kona EV. Fimm bílanna verða í þjónustu einkennisklæddra lögreglumanna við skyldustörf. Hinir verða notaðir í almennum störfum starfsmanna embættisins.
Stjórn lögreglunnar í St. Gallen velti því vandlega fyrir sér hvort 100% rafbíll gæti uppfyllt þarfir starfsmanna embættisins, ekki síst lögreglumanna við skyldustörf. Eftir vandlega greiningu var settur saman kröfulisti um þau atriði sem rafbíll yrði að uppfylla ef taka ætti rafbíla í notkun hjá embættinu.
Meðal þess sem gerð var krafa um í útboðslýsingunni var að bíllinn hefði nægilegan kraft og snerpu, en það gerir Kona EV einmitt. Hann skilar 204 hestöflum, nær 100/km hraða á 7,6 sekúndum og nær allt að 194 km hraða á klst. Þá þurfti rafbíllinn að hafa mikið drægi og það gerir Kona einmitt, en honum má aka allt að 449 kílómetra á hleðslunni. Þá var gerð krafa um innkaupsverð undir 50 þúsundum svissneskra franka. Síðast en ekki síst var gerð krafa um skamman afhendingartíma frá undirritun kaupsamnings, en bílarnir voru afhentir tilbúnir til notkunar um miðjan maí.
Með notkun rafbíla erum við að uppfylla markmið kantónunnar um minnkun umhverfisfótspors og bætta hljóðvist sem rafbílar hafa í för með sér. Ég hef fylgst með þeim hröðu framförum sem hafa átt sér stað í þróun rafbíla og þær sýna mér að ákvörðun okkar um kaup á rafbílum fyrir lögregluna var rétt,“ sagði Hanspeter Krüsi, yfirmaður samskiptamála hjá lögreglunni í St. Gallen af því tilefni þegar lögeglubílarnir voru teknir í notkun.