Lohner – fyrsti tvinnbíllinn

Þótt í hugum margra markist upphaf bílaaldar af fyrstu árum tuttugustu aldarinnar og þó einkum og sér í lagi þegar Ford fór að framleiða bíla á færibandi þá er forsagan heldur lengri. En með færibandinu stjórjukust afköstin og verðið snarlækkaði. Bíllinn varð almenningseign.

Upphaf bílaaldar var alls ekki bundið við Ameríkuálfu eina. Aðdragandinn var lengri og menn voru að fást við margvíslega og sumpart svipaða hluti bæði austan- og vestanhafs lungann úr 19. öldinni. Bæði Henry Ford í USA og þeir Karl Benz og Gottlieb Daimler í Þýskalandi og margir fleiri höfðu áður en fjöldaframleiðsla hófst, verið búnir að gera tilraunir með að byggja eitthvað sem kalla mátti bíla úr því efni sem handbært var - reiðhjólum og hestvagnahlutum. Bretar  voru byrjaðir að gera út vélknúna (gufu-)

http://www.fib.is/myndir/Lohner3.jpg
Fjórhjóladrifinn Lohner-Porsche.
http://www.fib.is/myndir/Lohner2.jpg
Rafmótorar í nöfum fram-
hjólanna.
http://www.fib.is/myndir/Lohner1.jpg

almenningsvagna um miðja 19. öldina. Raforkan var um þessar mundir að breiðast út og á meginlandi Evrópu bundu menn lengi talsverðar vonir við að hún mætti nýtast til að knýja samgöngutæki áfram (og gera enn). En svo kom brunahreyfillinn fram og þá urðu straumhvörf.

En bæði fyrir og eftir tilkomu brunahreyfilsins var rafmagnið ofarlega í hugum margra frumherjanna og alltaf var vandinn þessi sami gamli: Geymsla orkunnar um borð í sjálfrennireiðinni, eða með öðrum orðum geymarnir, þyngd þeirra og rýmd. Rýmdin var of lítil en þyngdin og fyrirferðin of mikil. En menn byrjuðu snemma að reyna og frumgerð eins fyrsta rafbílsins var byggð um 1830 sem sjálfsagt kemur mörgum á óvart.

Vínarborg var á þessum árum ótvíræð höfuðborg Mið-Evrópu og þar var fengist við fleira en óperettur, Straussvalsa og sálgreiningar undir handarjaðri þeirra Freuds og Jungs. Þar var líka verulegur iðnaður og tækniþróun og vagnasmiðjan Jacob Lohner & Cie var vel þekkt, ekki síst fyrir bílasmíði sem þar hófst 1896. Bílaframleiðsla Lohner var í náinni samvinnu við frönsk tæknifyrirtæki sem m.a. byggðu brunahreyfla í bílana.

En hjá Lohner hugsuðu menn alltaf mjög um rafmagnið og þegar kornungur verkfræðingur kom þar til starfa að bílasmíði og bílahönnun árið 1898 drifu menn í því að byggja fyrsta Lohner rafbílinn. Bíllinn var alfarið hönnun hins unga verkfræðings sem síðar átti eftir að marka djúp spor í bílasöguna. Hann hét Ferdinant Porsche

Lohner rafbíllinn hans Porsche var knúinn tveimur rafmótorum sem komið var fyrir í framhjólunum. Hann var vissulega ekki fyrsti rafbíllinn í veröldinni því að um þetta leyti var um helmingur þeirra bíla sem byggðir voru, bæði í Ameríku og í Evrópu, rafbílar. Að koma tveimru mótorum fyrir í nöfum beggja framhjóla var hins vegar nýjung en með þessari tækni varð komist hjá því að smíða gírkassa og drifbúnað sem hvorttveggja var  bæði flókið og dýrt og bilanagjarnt í upphafi bílaaldar. En eins og aðrir rafbílar var Lohner/Porsche bíllinn bæði hljóðlátur og góður í akstri og lítt bilanagjarn.

En drægið var lítið og langan tíma tók að hlaða geymana. Því var tekið næsta skref og komið fyrir brunahreyfli og rafal í bílnum, sem sé bensínrafstöð. Þannig varð fyrsti tvinnbíllinn til árið 1901, um það bil öld áður en tvinnbíllinn Toyota Prius kom fram á sjónarviðið. Þennan bíl nefndi Porsche System Mixte og alls voru byggðir hátt í 300 slíkir bílar sem hljómar vissulega með talsverðum ólíkindum.  Ekki voru allir þessir tæplega 300 bílar eins. Útfærslunar voru ýmist þannig að drif var á framhjólunum einum eða þá á öllum fjórum hjólum.