Lokaákall um aðgang að ökutækjagögnum í Evrópu
Í dag halda fulltrúar bíleigenda- og neytendasamtaka í samvinnu við samtök fyrirtækja innan bílgreina- og samgöngugeirans í Evrópu blaðamannafund og krefjast aðgangs að gögnum sem safnað er miðlægt frá ökutækjum. Þetta er lokaákall til forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Ursula von der Leyen, um sértæka löggjöf sem tryggir aðgang að ökutækjagögnum.
Stórfyrirtæki s.s. Michelin og ALD Automotive styðja ákallið auk mikils fjölda óháðra þjónustuaðila í bílgreininni.
Verulegar tafir á lagasetningu valda áhyggjum. Skertur aðgangur að ökutækjagögnum skaðar hagsmunaaðila á eftirmarkaði og óháða þjónustuaðila verulega. Gagnaaðgangur er alltaf að þrengjast og kostnaður að aukast. Neytendur finna fyrir auknum kostnaði í tengslum við rekstur og viðhald ökutækja.
Vakin er athygli á að löggjöf Evrópusambandsins um aðgang að gögnum (Data Act) nægi ekki til að mæta þörfum bílgreinarinnar og bíleigenda um upplýsingar. Margir fulltrúar í framkvæmdastjórninni og á Evrópuþinginu styðja sértæka löggjöf til að koma í veg fyrir misræmi á milli atvinnugreina.
Það er enn þá tækifæri til að samþykkja löggjöf á þessu kjörtímabili. Verði tillaga ekki lögð fram mun allt ferlið tefjast fram á næsta kjörtímabil og þá gæti öll vinnan á þessu kjörtímabili glatast. Samkeppnishalli mun aukast til óhagræðis fyrir neytendur og minni fyrirtækin en til ábata fyrir bílaframleiðendur og stórfyrirtæki.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ber að tryggja ábyrgar og raunhæfar lausnir sem þjóna hagsmunum neytenda og atvinnulífsins. Hagsmunaaðilar í bílgreininni, samgöngugeiranum og neytendasamtök skora á Von der Leyen og framkvæmdastjórnina að vinna að framgangi löggjafar um aðgang að ökutækjagögnum.
Þetta er lokatækifærið til réttarbóta í bílgreininni. Krafan um aukinn aðgang að ökutækjagögnum er samkeppnis- og neytendamál. Það er enn tækifæri en klukkan tifar.
Um FIA Region I
Fédération Internationale de l'Automobile (FIA) var stofnað árið 1904. Aðild að FIA eiga bifreiðasamtök frá 146 löndum. FIA heldur einnig utan um akstursíþróttir á heimsvísu. Svæðisskrifstofa FIA Region I í Brussel sinnir neytendaverkefnum fyrir 100 bíleigenda- og ferðafélög, með yfir 36 milljón félaga, í Evrópu, Miðausturlöndum og Afríku. FÍB er aðili að FIA.