Lokahnykkur yfirtöku?
Hugo Chávez ásamt Fidel Castro.
Hugo Chávez forseti Venezúela sagðist í ræðu sinni á 1. maí, baráttudegi launafólks í gær, hafa lagt síðustu hönd á að þjóðnýta eða slá ríkiseign á síðustu olíulindirnar sem enn lutu stjórn erlendra aðila. Lindirnar sem um ræðir eru á svonefndu Orinoco svæði þar sem talið er að mestu ónýttu olíulindir heims séu til staðar.
Chávez sagði að með þessu skrefi væri loks lokið arðráni fjölþjóðafyrirtækja á auðlindum landsmanna. Financial Times segir hins vegar að í þessari þjóðnýtingu felist ekki annað en það að ríkisstjórnin sé komin með meirihluta í stjórnum fjögurra venezúelskra dótturfyrirtækja olíuleitar- og vinnslufyrirtækjanna ConocoPhilips, Chevron, ExxonMobil, Total, BP og Statoil. Í breytingunni felist í raun ekki annað en það að áhætta móðurfyrirtækjanna verður minni en áhætta heimamanna að sama skapi meiri.