Lokanir tryggja öryggi gangandi vegfarenda
Nú standa yfir framkvæmdir og lagfæringar á gatnakerfinu víða á höfuðborgarsvæðinu. Ábendingar hafa borist um gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar og eins um framkvæmdir beggja vegan Kringlumýrarbrautar í Fossvogi svo eitthvað sé nefnt. Vegfarendur sem þar fara um velta því fyrir sér af hverju sé ekki gengið frá vinnusvæðum eftir vinnudag? Alltaf sömu tafirnir viðvarandi þó vinnudegi sé lokið.
FÍB innti Vegagerðina svara við framangreindum framkvæmdum. Í svari Vegagerðinnar kemur fram að varðandi framkvæmdir við gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar þá er nauðsynlegt að halda lokunum allan sólarhringinn meðan á þeim stendur. Ástæðan er fyrst og fremst sú að þær tryggja hjáleiðir fyrir gangandi vegfarendur fram hjá því framhjáhlaupi sem unnið er að hverju sinni. Í stuttu máli sagt, þá tryggja lokanirnar öryggi gangandi vegfarenda utan sem innan framkvæmdatíma.
,,Að auki má nefna að lokanirnar eru útfærðar með þungum vörnum, þ.e. steyptum blokkum, og það tekur um það bil hálfan dag að færa þær til eða frá. Ef það yrði gert væri engin hjáleið fyrir gangandi vegfarendur,“ segir í svari Vegagerðarinnar.
Enn fremur kemur fram að vinnusvæðið við Fossvog hefur engin áhrif á flæði umferðar um Hafnarfjarðarveg eins og stendur. Þegar lokanir stóðu yfir sl. haust var reynt að gera það þannig að þær voru færðar til í lok vinnudags. Í sumum tilvikum var það erfitt þegar lokanir voru gerðar með steyptum blokkum.
Vegagerðin reynir auðvitað að vanda til verka og er meðvituð um áhrif okkar framkvæmda á umferðarflæðið en öryggi vegfarenda og þeirra sem eru að vinna við framkvæmdir eru þó ávallt í forgangi.