Lokaúrslit sparaksturskeppninnar
Endanleg úrslit í sparaksturskeppni FÍB og Atlantsolíu, sem fram fór sl. föstudag, 31. maí liggja nú fyrir. Sigurvegari er Júlíus H. Eyjólfsson á Toyota Yaris dísil. Eldsneytiseyðsla bíls Júlíusar reyndist 3,92 lítrar. Það þýðir að eldsneytiskostnaður milli Reykjavíkur og Akureyrar var kr. 3.621 á verði dagsins í dag.
Úrslitin lágu fyrir fyrr í dag eftir að dómnefnd felldi úrskurð í málum þriggja keppenda. Keppnisstjórn hafði vísað tveimur þessara mála til dómnefndarinnar en kæra barst vegna þess þriðja. Úrskurður dómnefndarinnara var á þann veg að öllum bílunum þremur var vísað úr keppni.
Í öðru sæti varð Gunnar Ólason á Kia Rio. Bíllinn fór leiðina á 4,09 lítrum af dísilolíu. Rauneyðslan var sú sama og var eldsneytiskostnaðurinn á leiðinni kr. 3.781. Í þriðja sæti varð Hilmar Þorkelsson á Volkswagen Polo dísil. Rauneyðsla bíls Hilmars var sú minnsta í keppninni eða einungis 3,44 l á hundraðið. En aksturinn var það hægur að Hilmar var talsvert lengur á leiðinni en hann hefði átt að vera samkvæmt tímamörkum keppninnar og hlaut hann því 0,48 l í refsingu og aftur 0,45 l refsingu vegna of skamms hvíldartíma á Gauksmýri. Því varð eyðsla hans 4,36 l að meðtöldum refsistigum (lítrum). Nánar má lesa í úrslitin í PDF skjali.
Keppnin var með mjög breyttu sniði frá fyrri árum. Leiðin var mun lengri en áður, eða frá Reykjavík til Akureyrar. Keppendum var gert að aka á löglegum hámarkshraða eins og hann er á einstökum köflum leiðarinnar. Tímamörk voru því mun þrengri en áður og keppnin því vandasamari og harðari. Þá var í hverjum keppnisbílanna SAGA búnaður frá Arctic Track og „sjónvarpaði“ búnaðurinn ferð hvers einstaks bíls. Keppninni nú var á öðrum þræði ætlað að sýna fram á að hægt sé að ferðast um landið án gífurlegra eldsneytisútgjalda, ef viðhaft er úthugsað ökulag í þeim tilgangi að spara eldsneyti án þess að tapa ferðatíma.