Loksins ökugerði

Framkvæmdir hófust í dag við ökugerði í Reykjanesbæ og er fyrirhugað að opna það að einhverju leyti strax með vorinu. Sérstakt  félag, Ökugerði ehf. hefur verið stofnað um rekstur gerðisins og framkvæmdastjóri hefur verið ráðinn. Sá er Ólafur Kr. Guðmundsson varaformaður FÍB og verkefnisstjóri EuroRAP á Íslandi.

Ökugerðið verður sunnanvert við Reykjanesbrautina við upphaf Grindavíkurvegar, á sama stað sem annað félag hugðist fyrir nokkrum árum leggja stóra kappakstursbraut og hafa ökugerði sem hluta af henni. Forráðamenn Ökugerðis ehf. kynntu ökugerðið í dag fyrir fulltrúum samgönguráðuneytis, Vegagerðarinnar, fulltrúum Rannsóknarnefndar umferðarslysa,  fjölmiðlum o.fl.

http://www.fib.is/myndir/Stjornokugerdis.jpg
Frá vinstri: Ómar Ingason, Páll Harðarson, Ágústína Haraldsdóttir og Ólafur Kr. Guðmundsson.

Ólafur Guðmundsson sagði á fundinum í dag að með tilkomu svæðisins yrði loks mögulegt fyrir ökunema á Íslandi og alla þá sem vilja bæta færni sína í akstri, að stunda æfingaakstur við tryggar aðstæður og verða þannig betur undir það búnir að takast á við raunverulegar erfiðar aðstæður sem upp geta komið í almennri umferð.

Ökugerði ehf. er dótturfyrirtæki verktakafyrirtækisins Nesbyggðar. Aðaleigendur  beggja félaga eru Páll Harðarson og Ágústína Haraldsdóttir.