Lokun á Hringveginum
Þjóðvegi nr. 1 verður lokað á milli Kirkjubæjarklausturs og Jökulsárlóns kl. 11:00. Búast má við að þjóðveginum undir Eyjafjöllum verði lokað seinna í dag. Tilkynning um það verður gefin út kl. 12:00. Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar.
Versta hríðarveðrið verður á Vestfjörðum og mjög blint í 20-25 m/s, einkum á Gemlufallsheiði, Steingrímsfjarðarheiði, á Klettshálsi og Þröskuldum. Dregur úr ofankomu seinnipartinn en lægir ekki að ráði fyrr en í nótt. Dálítið snjófjúk verður á öðrum fjallvegum og NA 13-18 m/s.
Í Öræfum hvessir með morgninum, þar verða vindhviður allt að 45 m/s frá hádegi og litla breytingu er að sjá þar allt til morguns. Eins er hætt við sandfoki á Skeiðárársandi. Undir Eyjafjöllum verður líka hvasst í dag og hætt við hviðum 35-40 m/s, einkum frá því um miðjan dag.
Það er éljagangur og krapi á Fróðárheiði. Á Vestfjörðum er víða hvassviðri og éljagangur, slydda eða snjókoma. Stórhríð er á Steingrímsfjarðarheiði og snjóþekja. Hrafseyrarheiði er orðin þungfær og þæfingsfærð er á Dynjandisheiði. Krap er á Þröskuldum, Hálfdáni og á köflum á norðanverðum fjörðunum, þar jafnvel á láglendi.
Einnig er farið að élja sums staðar á Norðurlandi en lítið sem ekki farið að festa á vegi.
Hálkublettir eru á Möðrudalsöræfum og víðar á Austurlandi, snjóþekja á Fjarðarheiði og hálka á Oddsskarði.