Lokun aflétt á Hringveginum en áfram mjög hvasst
Búið er að aflétta akstursbanni sem verið hefur vegna hvassviðris á Suður- og Suðausturlandi segir í tilkynningu frá Vegagerðinni. Engu að síður er rétt að ítreka að enn er víða mjög hvasst, s.s. á Reynisfjalli og við Sandfell í Öræfum, og þar ættu t.d. húsbílar alls ekki að vera á ferð.
Á Vestfjörðum er sums staðar nokkur hálka eða snjóþekja á fjallvegum, strekkingsvindur og skafrenningur. Ófært er á Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði.
Krapi er á Siglufjarðarvegi og sjóþekja á Öxnadalsheiði en hálkublettir eru í Ólafsfjarðarmúla, á Víkurskarði og víðar.
Hálka er á Möðrudalsöræfum og Fjarðarheiði en snjóþekja m.a. á Vopnafjarðarheiði. Öxi er þungfær. Hálkublettir eru einnig á nokkrum vegum á Austurlandi.