Luch Alphand sigraði í Dakarrallinu

The image “http://www.fib.is/myndir/Alphandsigrar.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Luc Alphand.
93 mótorhjól, 67 bílar og 33 trukkar komust í mark í Dakarrallinu sem lauk formlega með verðlaunaafhendingu í gær, sunnudag. Sigurvegari í bílaflokki varð fyrrum heimbikarhafi á skíðum, Luc Alphand á Mitsubishi og er þetta fyrsti sigur hans í Dakarrallinu. Sigurvegari í mótorhjólaflokki varð Marc Coma og er þetta sömuleiðis hans fyrsti sigur.  Í trukkaflokki sigraði Rússin Vladimir Chagin á Kamaz og er þetta hans fimmti sigur.
Tvö börn urðu fyrir annarsvegar keppnisbíl og hins vegar þjónustubíl í þriðja og öðrum síðustu áföngum keppninnar og létu lífið. Áður hafði mótorhjólakeppandinn Andy Caldecott látið líf sitt þannig að þrjú dauðaslys urðu í keppninni í þetta sinn. Í minningu hinna látnu var ákveðið að taka ekki tíma á sérleið síðasta áfanga og voru því úrslitin orðin ljós á föstudag.
Undanfarin ár hefur lið Mitsubishi verið með yfirburði í keppni bíla og hélt stöðu sinni með sigrinum nú. Þetta er ellefti sigur Mitsubishi í 28 ára sögu rallsins og Mitsubishi innsiglaði hann með því að eiga líka þriðja og fjórða sætið.
En Volkswagen hefur verið að styrkja stöðu sína undanfarin ár og það varð Giniel de Villiers á VW sem varð í öðru sæti og í fimmta sæti varð Miller sem líka ók Volkwagen.
En segja má að árangur Schlessers hins franska sé, eins og undanfarin ár, athyglisverður. Hann hefur sjálfur hannað bíla sína, aðallega úr Ford-hlutum og nefnir þá Schlesser-Ford. Bílarnir eru einungis með drifi á afturhjólum en hafa komist alla leið og verið meðal þeirra fremstu um árabil. Sjálfur varð Schlesser í sjötta sæti. Félagi hans Magnaldi varð í tíunda sæti og Servia, líka á Schlesser Ford varð í því fjórtánda.
Í mótorhjólaflokki er sérstaða KTM mótorhjólaframleiðandans austurríska mjög afgerandi. KTM hjól röðuðu sér í átta efstu sætin. í því níunda er Yamaha hjól Portúgalans Rodrigues. KTM hjól eru í 10 og 11. Þá koma næst Yamaha, en þar fyrir neðan má segja að nokkurnveginn annað hvert hjól sé KTM.
Um 120 mótorhjól náðu ekki í mark og féllu úr keppni á ýmsum stigum. Eitt af fáum Harley Davidson hjólum sem hófu keppni féll strax úr keppni í þriðja áfanga. Ural hjól með hliðarvagni náði aðeins lengra en féll út í fjórða áfanga.
105 bílar náðu ekki á leiðarenda. Þeirra á meðal voru tveir fyrrum sigurvegarar, þau Jyta Kleinschmidt á Volkswagen og Hiroshi Masuoka á Mitsubishi. Jytta Kleinschmidt féll út í 11. áfanga en Masuoka strax í þeim fjórða.