Lundúnaleigubílarnir hverfa?

Lundúnaleigubílarnir (oftast svartir að lit) eru að margra mati órjúfanlegur hluti götumyndarinnar í borginni.  Og varla nokkur ferðamaður sem til borgarinnar kemur yfirgefur hana aftur án þess að hafa ekið í þessum ágætu samgöngutækjum. En nú kann svo að fara að hinir dæmigerðu Lundúnaleigubílar hverfi. Framleiðandi bílanna er nánast á hausnum.

Fyrirtækið sem nú framleiðir Lundúnaleigubílana heitir Manganese Bronze. Stjórnendur þess hafa sent frá sér tilkynningu um að reksturinn sé að þrotum kominn og gjaldþrot blasi við. Forstjórinn segir við Sky News að efnahagskreppan hafi komið mjög hart niður hjá fyrirtækinu.

http://www.fib.is/myndir/Londont-inni.jpg

Undanfarnar vikur hafa viðræður milli forráðamanna Manganese Bronze og kínverska bílaframleiðandans Geely. Geely er reyndar stærsti hluthafinn í Manganese Bronze (og eigandi Volvo einnig). Nú hafa þessar viðræður siglt í strand og fátt annað en gjaldþrot er sjáanlegt.

Vart er hægt að kalla framleiðsla Lundúnaleigubílanna fjöldaframleiðslu. Bílarnir eru handsmíðaðir að flestu leyti og gangverk þeirra, vélar, drif og gírkassar, bremsur og stýrisbúnaður, er samtíningur héðan og þaðan. Tæplega 300 starfsmenn starfa við framleiðsluna. Hver bíll er verulega dýr eins og vænta má um handbyggða bíla.

Lundúnaleigubílarnir eru byggðir eftir gamalli forskrift. Markmið hennar er fyrst og fremst það að bílarnir séu sem auðveldastir í notkun fyrir viðskiptavinina, létt og auðvelt sé að stíga inn og út og að koma fyrir farangri. Þá skal beygjuradíus þeirra vera það stuttur að bílarnir ráði við U-beygju á nánast hvaða tvístefnugötu í London sem vera skal.