Lundúnaleigubíll frá VW
Lundúnaleigubílarnir eru eitt höfuð einkennismerki borgarinnar, Þægilegir fyrir farþegana að stíga inn í og út úr þeim og snúa á „punktinum.“ En bílarnir eru búnir að vera eins um áratugi og eru tæknilega gamaldags, þungir, eyðslufrekir á dísilolíuna og menga mikið. Þetta þykir auðvitað ekki góð latína á þessum tímum þegar allt skal vera undir merkjum umhverfismildi og –verndar og loftslagsbreytingar ógna tilverunni. Volkswagen hefur gert nokkrar frumgerðir nýs Lundúnaleigubíls sem gengur fyrir rafmagni, er lítill að utan en rúmgóður að innan og kemst a.m.k. 300 km á rafhleðslunni.
Þessi taxi-hugmyndarbíll Volkswagens er kannski ekki endilega bara hugsaður fyrir Lundúnaborg, heldur borgir almennt. Hann er byggður á nýrri grunnplötu fyrir smábíla og minni bíla VW og systurfyrirtækjanna sem eru m.a. Skoda, Audi og Seat. Nokkrar frumgerðir hafa verið byggðar með sérkennum fyrir stórborgir eins og Berlín, Hong Kong, Mílanó og nú London.
Allar eru þessar frumgerðir reyndar byggðar á frumgerðinni VW -up sem sýnd var á bílasýningum í Evrópu fyrir nokkrum árum. Nú er þessi -up-lína á leið í framleiðslu og verður m.a. sýnd að einhverju leyti á næstu Genfarbílasýningu í mars á næsta ári.
En sem hugmynd að Lundúnaleigubíl er þessi up-bíll 373 sm á lengd, 168 sm á breidd og 160 sm á hæð. Lengd milli hjóla er 256 sm og ökumaðurinn situr einn framí en farangursgeymslan er við hlið hans. Aftursætið er fyrir farþegana og stór rafknúin rennihurð sem rennur fram á við opnar farþegum aðgang í farþegarýmið.
Rafmótorinn sem knýr bílinn er 115 hö og rafhlöðusamstæðan er 45 kílóWattstunda. Eina klst tekur að hlaða tóma geymana upp í 80 prósent af geymslugetunni með því að tengja við hraðhleðslutengil.