Lundúnataxinn endurfæðist
Ásamt Big Ben, rauðu símaklefunum og tveggja hæða strætisvögnunum er Lundúnaleigubíllinn þekktasta einkenni Lundúnaborgar. Lundúnaleigubíllinn sem oftast er svartur að lit, hefur verið í grundvallaratriðum eins frá því vel fyrir miðja síðustu öld enda sérlega hentugur til þeirra nota sem hann er ætlaður.
En gamli Lundúnaleigubíllinn er orðinn tæknilega úreltur. Gamla dísilvélin sem upphaflega er frá hinu horfna breska bílmerki Austin, er bæði hávær, grófgeng og mengandi og verður ekki lagfærð frekar. Til viðbótar við það verður stór svæði í London að útblásturslausum svæðum frá og með árinu 2018. Það þýðir það að innan svæðanna má alls ekki aka öðrum farartækjum en þeim sem ekki gefa frá sér mengandi útblástur, það er að segja rafmagns- eða vetnisbílum.
Frá því að þessar áætlanir um mengunarlaus svæði í nokkrum mikilvægustu stórborgum heims voru gerðar opinberar hafa nokkrir bílaframleiðendur eins og t.d. Mercedes og Nissan glímt við það að hanna mengunarlausa bíla, ekki síst leigubíla og strætisvagna. Flestir höfðu reiknað með því að Lundúnaleigubílnum yrði ekki bjargað úr þessu en nú virðist sem það fari á annan veg. Gamalt breskt fyrirtæki sem eitt sinn framleiddi bíla og heitir Frazer-Nash, hefur hannað og byggt nýjan bíl sem í útliti og að notagildi er nánast endurborinn Lundúnataxi. Nokkrar frumgerðir bílsins hafa verið í reynsluakstri um nokkurt skeið og hefur Boris Johnson borgarstjóri í London prófað að vera farþegi í þeim og var að sögn stórhrifinn og sagði að bíllinn hefði liðið áfram hljóðlaust eins og Rolls Royce. Fyrstu bílarnir verða tilbúnir til afgreiðslu til kaupenda vorið 2015.
Þessi nýi Frazer-Nash Lundúnaleigubíll er rafbíll með líþíum rafgeymum og tveimur rafmótorum. Í bílnum er einnig bensínrafstöð en hún fer sjálfvirkt í gang þegar ganga tekur á strauminn í geymunum og ekki hefur gefist ráðrúm til að stinga bílnum í samband við hleðslustraum. Lítil hætta er því á að bíllinn strandi einhversstaðar með farþega sína, t.d. á leið í flug út á Heathrow. Svo lengi sem bensín er á tanknum þá keyrir bíllinn.
Sá sem haft hefur yfirumsjón með hönnun og smíði þessa nýja leigubíls er indverskættaður verkfræðingur, Kamal Siddiqi að nafni. Hann segir í samtali við Der Spiegel að þar sem hönnun breska leigubílsins sé svo góð og notadrjúg, auk þess sem hún sé eitt mikilvægasta einkennismerki Lundúnaborgar og leigubílaþjónustu borgarinnar, þá hefði það verið fráleitt að vera eitthvað að hræra verulega í ytra og innra útliti bílsins.
En innviðir og tækni nýja bílsins eru hins vegar gerbreytt. Tveir rafmótorar knýja hvor sitt afturhjól bílsins og eru þeir hvor 68 hestöfl eða 136 hö samtals. (gamla Austin dísilvélin var lengstum 55 hö). Líþíumrafhlöðurnar eru í gólfinu og rúma 12,5 kílóWattstundir sem dugar til um 80 km aksturs. Ljósavélin er þriggja strokka bensínvél og er hún fram í hinu hefðbundna vélarrúmi. Hún er alls ótengd hjólunum. Hennar eina hlutverk er það að snúa rafal og framleiða straum inn á líþíumgeymana. Heildardrægi bílsins á fullum raf- og bensíngeymum er rúmlega 500 kílómetrar. Það ætti að duga ágætlega þar sem daglegur akstur leigubílanna í London er milli 160 og 300 kílómetrar. En eldsneytiseyðslan er mun minni en á gömlu bílunum eða um þrír lítrar af bensíni á hverja 100 km. Til samanburðar þá eyða gömlu taxarnir 10-12 lítrum af dísilolíu á hundraðið.