Lúxus fyrir ökumenn getur kostað það að 18 manns slasist mjög alvarlega eða látist á Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi

http://www.fib.is/myndir/R%F6gnvaldurJ%F3nsson.jpg
Rögnvaldur Jónsson verkfræðingur.

Að undanförnu hefur mátt lesa það í blöðum, í viðtölum í útvarpi og  sjónvarpi að samgönguráðherra hafi hug á því að láta tvöfalda Suðurlandsveg að Selfossi og Vesturlandsveg norður fyrir Hvalfjarðargöng. Hann virðist hafa með þessu látið undan þrýstingi þingmanna, sveitarstjórnarmanna og annarra aðila sem hafa farið hamförum nú undanfarið enda kosningar í nánd. Það er vel skiljanlegt að fólk vilji tafarlausar úrbætur á þessum vegum vegna þeirra tíðu slysa sem hafa orðið á áður nefndum vegarköflum. En hvað er þá til ráða? Hér er um tvo möguleika að ræða. Annarsvegar 2+1 vegi með hringtorgum og hinsvegar 2+2 vegi með mislægum gatnamótum. Hér á eftir ætla ég að vekja athygli lesenda á þrennu. Í fyrsta lagi lengd framkvæmdatíma, í öðru lagi umferðaröryggi þessara tveggja kosta og í þriðja lagi kostnað við framkvæmdirnar.

a)    Framkvæmdatími við gerð 2+2 veganna er mjög langur og þar er bæði um að ræða langan undirbúningstíma og framkvæmdatíma. Það þarf að fara með þessar framkvæmdir í umhverfismat og kaupa upp dýr lönd undir vegina. Framkvæmdatími 2+1 veganna er skammur og undirbúningstími er stuttur þar sem ekki þarf að gera umhverfismat og ekki þarf að kaupa lönd. Hægt væri að bjóða út strax fyrstu framkvæmdir við Suðurlandsveg.

b)    Sýnt hefur verið fram á að umferðaröryggi 2+1 veganna er næstum því jafn gott og 2+2 veganna og þeir anna umferð fyrir næstu framtíð. Með því að nota þessa lausn væri hægt að koma í veg fyrir mörg alvarleg slys og banaslys vegna miklu styttri framkvæmdatíma. Lauslega má gera ráð fyrir því að framkvæmdatími 2+2 veganna verði minnst tvisvar sinnum lengri.

c)    Gera má ráð fyrir því að kostnaður við byggingu 2+2 vegina sé allt að fjórum sinnum hærri en fyrir 2+1 vegina.

Hversvegna er þá verið að mæla með byggingu 2+2 vega? Ég fullyrði það að í engu öðru landi mundu menn láta sér detta það í hug hvað þá meira. En hvaða afleiðingar gæti þá þetta haft ef af verður. Eins og ég skil umræðuna og kröfur þrýstihópanna þá er aðalástæðan fyrir framkvæmdunum bætt umferðaröryggi. Á síðustu fimm árum hafa að meðaltali slasast alvarlega eða látist 12 manns árlega í umferðarslysum á vegarköflunum frá Hafravatnsvegi að Biskupstungnabraut og frá Mosfellsbæ að Hvalfjarðargöngum. Miðað er hér við að slysum fækki um helming þegar framkvæmdum er lokið fyrir báða kostina. Sé reiknað með að líklegur framkvæmdatími sé tólf ár fyrir 2+2 vegina og sex ár fyrir 2+1 vegina þá mundi á þeim tíma  slasast alvarlega eða látast 108 manns sé framkvæmdatíminn tólf ár en 90 manns verði hann helmingi styttri. Þetta er mjög varlega áætlað og líklegra er að framkvæmdatími fyrir 2+2 vegina verði miklu lengri.

Þessi mismunur á fjölda umferðarslysanna ætti að verða alveg næg ástæða til að leggja af áætlanirnar um byggingu 2+2 veganna þar sem ekkert virðist mæla með þeim. Því til viðbótar verða þessi 18 slys alvarlegustu slysin því aðgreining akstursstefna kemur í veg fyrir þau allra hættulegustu. Mörg brýn verkefni í vegagerð annars staðar á landinu sem mundu bæta umferðaröryggi og þar með fækka alvarlegum slysum hafa beðið óhóflega lengi og væri því meiri þörf á að sinna þeim heldur en setja peninga í óarðbærar framkvæmdir eins og virðist vera ætlunin.

Rögnvaldur Jónsson