Lúxusbíll til hinstu hvílu
Daimler, móðurfélag Mercedes Benz hefur ákveðið að hætta framleiðslu á ofurlúxusbílnum Maybach. Ef til vill eru ýkjur að tala um framleiðslu því að einungis fáein hundruð eintaka seljast árlega. Kaupendur eru ofurauðmenn, gjarnan tengdir olíu, enda Maybach með dýrustu bifreiðum sem fyrirfinnast.
Maybach er gamalt þýskt fyrirtæki í þungaiðnaði, stofnað 1909 til að byggja m.a. mótora í loftskip og eimreiðar. Fyrirtækið var alla tíð í hergagnaiðnaði og þegar Adolf Hitler komst til valda í Þýskalandi og byrjaði stórfellda hervæðingu, framleiddi Maybach dísilvélar m.a. í stærstu þýsku skriðdrekana. Eftir að fyrri heimsstyrjöldinni lauk var farið út í bílaframleiðslu og var fyrsta frumgerð Maybach bifreiðar afhjúpuð árið 1919 og frá 1921 var áherslan á það að byggja ofurlúxusbíla. Bílaframleiðsla Maybach lagðist af meðan á heimsstyrjöldinni 1939-1945 stóð og var ekki endurreist að henni lokinni.
Daimler sem eignaðist vörumerkið Maybach eftir stríð, ákvað svo að hefja framleiðslu á ofurlúxusbílum undir þessu nafni árið 2002 eftir að BMW og Volkswagen höfðu eignast bresku lúxusmerkin Rolls Royce og Bentley. Fyrstu framleiðslueintökin voru sýnd á bílasýningunni í Frankfurt það sama haust. Mikil umgjörð var í kring um Maybach bílana á sýningunni og sérstakir verðir gættu þeirra af miklum strangleik. Aðeins var hægt að skoða þá úr fjarlægð og engum hleypt inn í þá til að skoða þá nánar, hvað þá að máta sig við þá, nema að undangengnum löngum og erfiðum samningaviðræðum við einhverja ráðamenn á sýningarsvæði Mercedes Benz.
Kannski að bæði verðpólitíkin og hugarfarið í kring um Maybach frá endurreisninni 2002 hafi frekar fælt frá þá sem kannski áttu efni á að borga fyrir svona bíl. Allavega hefur salan alla tíð verið mun minni en reiknað var með og bullandi tap á þessari framleiðslu. Því hefur Dieter Zetsche forstjóri Daimler og aðrir ráðamenn ákveðið að nú sé komið nóg og best að leggja Maybach framleiðsluna niður frá og með 2013, eða þegar hætt verður að framleiða núverandi kynslóð Mercedes S-línunnar. Og afhverju nú það? spyr sjálfsagt einhver. Jú vegna þess að Maybach er byggður á S-Benzanum.