Lyklalaust aðgengi notað við innbrot í bíla
Að undanförnu og raunar allt þetta ár hefur töluvert verið um innbrot í bíla og hefur lögreglan varað eigendur og umráðamenn ökutækja við því að skilja eftir verðmæti í bílunum. Sé það óumflýjanlegt er mikilvægt að verðmæti séu ekki í augsýn.
Það er grunur manna sem til þekkja á þessu sviði að þessir óprúttnu náungar sem hér eru á ferð virðast nýta sér ákveðna tækni við innbrotin sem felst í því að merki frá lyklum bifreiða með lyklalausu aðgengi er notað til að opna þá.
Það er ekki bara hér á landi að grunur um að þessari tækni sé beitt til að komast inn í bíla en lögreglan á Bretlandseyjum hefur fengið inn á borð til sín mál af sama toga. Þar hafa meira að segja innbrotin þar sem þessari tækni er beitt, náðst upp á myndband, að sögn fjölmiðla þar í landi. Dæmi eru einnig um í Bretlandi að sama tækni geti ræst vélar bíla.
Breska lögreglan hefur hvatt bifreiðaeigendur til að gera auknar varúðaráðstafanir og bindur lögreglan vonir við að fljótlega verði hægt að finna leiðir til að loka fyrir þessa aðferð til innbrota í bíla. Lögreglan hér á landi telur að ekki sé hægt að útiloka að þessi tækni sé komin hingað.
Svo virðist sem þessir tæknivæddu þjófar noti merki, þó veik séu, frá bíllyklum sem séu inni í húsum til að komast inn í bíla. Einstaklingar með þekkingu á þessu sviði segja reyndar lítið mál að komast inn í bíla með lyklalaust aðgengi. Í Fréttablaðinu í vikunni segir bifreiðaeigandi frá því að óprúttnir aðilar hafi brotist inn í bifreið hans og látið greipar sópa. Grunsemdir eru um að þarna hafi verið á ferð tæknivæddir þjófar sem hafi nýtt sér tækni þar sem merki frá lyklum bifreiða með lyklalausu aðgengi er beitt til að komast inn.
Aðilar sem verða fyrir barðinu á þessum óprúttnu náungum verða fyrir miklu tjóni sem í mörgum tilfellum er erfitt að bæta. Mál af þessum toga geta mörg hver verið ansi snúin þegar lítur að tryggingum. Þegar þessari tækni er beitt við innbrotin eru ummerki lítil sem engin. Tryggingafélög líti svo á að ummerki um umbrot þurfi að vera til staðar svo eigendur bílana fái tjón sín bætt.
Að sögn Andra Ólafssonar samskiptastjóra hjá VÍS hafa ekki komið tilkynningar um tjón eða innbrot af þessu tagi inn á borð hjá þeim. „Hvert mál er náttúrulega metið sérstaklega en almenna reglan er hins vegar sú að til að fá bætur vegna innbrots þurfa að vera ummerki um innbrot. Við munum samt klárlega fylgjast grannt með þróun mála og bregðast við ef tilefni þykir til“ segir í svari frá VÍS.
,,Það hefur verið töluvert um innbrot í bíla að undanförnu. Ég er ekki með neina tölfræði fyrir framan mig í þeim efnum en ég er ekki frá því að innbrotin hafi færst í aukana upp á síðkastið. Innbrotin sem ég hef fengið til mín eru af gamla skólanum og þá oftast með rúðubroti. Ég las um þetta mál sem upp kom í Hafnarfirði en veit ekkert um það frekar. Maður hefur heyrt af svona atvikum erlendis frá þar sem þessari ákveðnu tækni er beitt,“ sagði Heimir Ríkarðsson lögreglufulltrúi í Kópavogi.