MaaS ferðafrelsi í einum mánaðarpakka
Margir geta efalaust hugsað sér að hafa frjálsan aðgang að nýjum eða nýlegum bíl í hvert sinn sem þess er þörf en vera um leið laus við það að þurfa að borga fyrir það að geyma hann þegar hann er ekki í notkun, greiða af honum tryggingar og fyrir allt viðhald hans. Gott væri líka að geta tekið leigubíl og þurfa ekkert að hugsa um hvað ferðin kostar, tekið strætisvagn eða lest án þess að standa lengi fyrst í biðröðinni við farmiðasöluna og að þurfa sjaldnast að hugsa um umferðarteppurnar. Það besta af öllu er þó það að vera laus undan því að skipuleggja í þaula allar ferðir sínar út frá einum megin samgöngumáta.
Nú hefur finnskt hugvitsfólk, sem velt hefur þessum hlutum fyrir sér sett fram lausn sem þau kalla MaaS sem er skammstöfun fyrir Mobility as a Service eða -Allir samgöngumátar sem þjónusta. MaaS er í raun lausn sem sameinar gegn einu mánaðarlegu gjaldi í einum þjónustupakka samgönguhlutverk einkabílsins, strætisvagnanna, lestanna og reiðhjólanna. Þessi framtíðarsýn kann að vera skemmra undan margir ætla.
Finnsk hugmynd handa heiminum
MaaS hugmyndin kviknaði sem fyrr segir í Finnlandi og þar hafa stjórnvöld og samfélag tekið henni opnum örmum og útnefnt sem eina af fimm megin undirstöðum framtíðarsamfélagsins. Hvernig á það að gerast? spyr sjálfsagt einhver. Jú, með því að sameina allar samgönguaðferðirnar í einum pakka sem greitt er fyrir mánaðarlega. Eitt flatt mánaðargjald gildir fyrir alla og hver og einn getur síðan kosið sér þann ferðamáta sem best hentar hverju sinni – bíl, lest, strætisvagn, reiðhjól eða leigubíl. Mánaðargjaldið er alltaf það sama, ekki ósvipað því að strætófarþegarnir greiða allir eitt og sama gjaldið fyrir mánaðarkortið hvort sem þeir eru þungir eða léttir eða með farangur eða engan farangur meðferðis eða ferðast oft eða sjaldan.
Einskonar „reynsluakstur“ á MaaS hugmyndini hefst í Helsinki, höfuðborg Finnlands, í loks þessa árs eða byrjun næsta. Samningar eru undirritaðir milli finnska ríkisins, rekstrarfélags almannasamgagnga, samtök leigubílstjóra og bílastöðva og stórs bílainnflutningsfyrirtækis. MaaS samgöngupakkanum verður ennfremur hleypt af stokkunum í tveimur öðrum evrópskum borgum á fyrrihluta næsta árs. Önnur þessara borga mun vera London.
Hið háleita meginmarkmið MaaS er að færa almenningi áður óþekkt frelsi til hreyfanleika (Mobility) hvenær sólarhringsins sem er og á þann hátt sem best hentar hverju sinni. Ekki aðeins á MaaS að skila meðlimum sínum frá einum stað til annars heldur líka stórbæta samgöngumöguleika og hreyfanleika þeirra og stytta ferðatímann verulega, óháð því hvaða samgöngutæki þeir hafa reitt sig mest á hingað til.
Hreyfanleiki allra
„Okkur þykir flestum vænt um bílana okkar vegna þess að enginn annar samöngumáti tekur þeim fram um þægindi og aðgengi. En samt er það svo að bílarnir okkar flestra borgarbúanna standa ónotaðir lang stærstan hluta sólarhringsins eða 96%. En það sem meira er að við eyðum að meðaltali 90 mínútum á dag í almannasamgöngutækjum og greiðum fargjöld með þeim upp á 300 evrur á mánuði. Það væri ekki ónýtt að ná þessum kostnaði niður og um leið að ferðast bæði fljótar og þægilegar og með öruggari hætti,“ segir Sampo Hietanen framkvæmdastjóri MaaS í Finnlandi.
Með því fjöldinn velji heppilegasta samgöngumátann hverju sinni stuðlar það að betri jöfnuði í umferðinni. Á sólbjörtum heitum sunnudegi hefur maður kost á því að vera akandi út úr bænum í opnum sportbíl. Og svo á virkum degi þegar umferðin er mjög þung gæti MaaS kerfið beint manni að reiðhjóli eða að neðanjarðarlestinni sem renna með manni hindrunarlaust framhjá umferðarhnútunum. Þegar svo rignir gæti maður skipt út strætisvagninum og tekið leigubíl í staðinn. Og svo þegar þarf að fara í helgarinnkaupin til heimilisins er næsti lausi bíll í innan við 15 mínútna göngufjarlægð frá þar sem þú ert staddur. Hvar hann er geturðu séð í appinu í snjallsímanum þínum. Einmitt þetta er að sögn framkvæmdastjóra meininhlutverk MaaS; að færa bestu kosti tölvu- og fjarskipavæðingarinnar í hendur ökumanna og spara þeim um leið miklar fjárhæðir og mikinn tíma og fyrirhöfn. „ en jafnframt trúum við því að MaaS eigi eftir að gerbreyta því hvernig borgir eru skipulagðar. Stórum bílastæðaflæmum verður hægt að breyta í opin græn svæði, umferðarhnútar og meðfylgjandi tafir verða meira og minna úr sögunni, bílaumferðin verður bæði minni og mun greiðari en nú er, loftgæði stórbatna og lífsgæði íbúa borganna sömuleiðis.“
MaaS og FIA í samvinnu
Evrópudeild FIA, alþjóðasambands bifreiðaeigendafélaga er nú þegar orðinn samstarfsaðili MaaS Alliance. Sampo Hietanen framkvæmdastjóri segir að þeir sem mest knýja á um að ghugmyndin fái framgang séu borgarbúar í yngri kantinum sem vilja búa sem næst miðborgarkjörnunum og leggi mikið upp úr því að geta keypt hverskonar þjónustu eins og samgöngur, tölvufjarskipti og slíkt. Með samstarfinu við FIA vonist menn til að geta betur skynjað óskir þeirra. „Málið er að í heimi í stöðugri mótun eru markmið okkar þau sömu, að skapa góðar, umhverfisvænar. fjölbreyttar og öruggar samgöngur fyrir alla,“ segir Sampo Hietanen.