Maðurinn sem fann upp ESC skrikvörnina fær evrópsk heiðursverðlaun
Eftirlaunaþeginn Anton van Zanten verkfræðingur, uppfinningamaður og fyrrum starfsmaður Bosch er sá maður sem fann upp ESC skrikvörnina sem nú er skyldubúnaður í öllum nýjum bílum í okkar heimshluta. Hann var sérstaklega heiðraður nýlega og ekki að ósekju: Talið er víst að 8500 manns í Evrópu einni, eigi búnaði þessa manns líf sitt að launa.
Hollendingurinn Anton van Zanten starfaði hjá Bosch í 25 ár og er maðurinn á bak við 180 einkaleyfi tengd bílum. Af þeim telst ESC vera hans mesta afrek. Fyrir það var hann heiðraður nýlega á ráðstefnu evrópsku einkaleyfastofnunarinnar EPO og hlaut árleg hugvitsmannaverðlaun og sérstöku heiðursverðlaunin „Lífsverk“ sem veitt eru fyrir uppfinningu sem bjargað hefur mannslífum.
Nú eru rúm 20 ár liðin síðan fjöldaframleiðsla á bíl með ESC skrikvarnarkerfi hófst. Sá bíll var ofurlúxusvagninn Mercedes S-600. Að baki ESC var 35 manna hópur verkfræðinga hjá Bosch undir stjórn Antons van Zanten. „Anton van Zanten og verkfræðingarnir, félagar hans eru verndarenglar margra bílstjóra og uppfinning hans, ESC er í lýsandi samhengi við einkunnarorð Bosch; -Invented for life, eða uppfinning í þágu lífs; sagði Volkmar Denner forstjóri Bosch við verðlaunaathöfnina.
Í Evrópu einni hefur ESC þau rúmu 25 ár sem liðin eru komið í veg fyrir minnst 8500 banaslys og afstýrt meir en 250 þúsund árekstrum og útafkeyrslum. Eitt og sér er ESC kerfið mikilvægasti öryggisbúnaður bíla næst á eftir öryggisbeltunum og mikilvægara en loftpúðarnir að mati ráðamanna Bosch. Væru allir bílar veraldar með ESC-búnaði myndi það fækka slysum sem verða vegna þess að bíll skrensar um 80 prósent.
Frá 1. nóvember 2014 hefur ESC verið skyldubúnaður á Evrópska efnahagssvæðinu í öllum nýskráðum fólksbílum og atvinnubílum upp að 3,5 tonnum að eigin þyngd. Það er einnig skyldubúnaður í Ástralíu, Kanada, Ísrael, Nýja-Sjálandi, Rússlandi, S. Kóreu, Japan, Tyrklandi og Bandaríkjunum. Um það bil 64 prósent nýrra bíla í heiminum öllum eru nú með ESC. Bosch hefur frá upphafi framleitt meir en 150 milljón ESC-kerfi og -búnað í bíla.
ESC er vissulega þekktasta afrek verkfræðingsins Anton van Zanten en alls ekki hið einasta. Einkaleyfisbundin verk hans eru alls um 180 talsins. Meðal þeirra er tölvustýrð veltivörn og búnaður sem heldur aftanívögnum stöðugum og kemur í veg fyrir að þeir rási. Siden 2003 har Anton van Zanten fór á eftirlaun árið 2003 en hefur síðan verið mjög virkur sem fyrirlesari í háskólum um bílatækni og sem ráðgjafi bílaframleiðenda.
Evrópsku hugvitsmannaverðlaunin hafa verið veitt frá árinu 2006.Með þeim vill Evrópska einkaleyfastofnunin heiðra vísinda-,tækni- og uppfinningafólkfyrir framúrskarandi uppgötvanir og einkaleyfi sem orðið hafa til gagns og framfara í samfélagi manna. Að þessu sinni bárust stofnuninni tæplega 400 tilnefningar frá 13 löndum. Sérstök alþjóðleg nefnd fór yfir þær og valdi úr þeim 15 sem kepptu til úrslita.
ESC búnaðurinn virkar í grófum dráttum þannig að skynjarar sem skynja snúning hjólanna og hreyfingar bílsins senda stöðugt upplýsingar í tölvu sem vinnur úr þeim niðurstöður 25 sinnum á hverri sekúndu. Þegar tölvan greinir misræmi og frávik í þessum upplýsingum grípur hún inn í, slær fyrst af afli vélarinnar og jafnar út misræmið með því ýmist að hemla eða slaka á hemlun einstakra hjóla til að koma bílnum á rétta stefnu á ný.