Mærsk eflir bílaskipaflotann
Bílaflutningaskipið Maersk Teal. Skipið getur flutt 4.400 bíla í einu.
Þegar nýlegur samstarfssamningur milli danska skipafélagsins Maersk og hins norska Hoëgh Autoline kemst til fullra framkvæmda munu félögin í sameiningu ráða siglingum 67 risaskipa um heimshöfin sem eingöngu eru byggð til bílaflutninga. Áætlanir eru uppi um að fjölga bílaflutningaskipum á vegum Maersk enn frekar á næstu árum.
Skandinavísku skipafélögin tvö eru með þessu að treysta stöðu sína gagnvart stöðugt vaxandi hnattvæðingu bílaiðnaðarins sem fyrirsjáanlega mun leiða til þess að sjálf framleiðslan flyst í vaxandi mæli frá Evrópu til Asíu.
Tólf bílaflutningaskip Maersk og 55 skip Hoëgh Autoline flytja nú þegar mikinn fjölda bíla til bæði Evrópu og Ameríku frá bílastórveldunum Japan og S. Kóreu og þegar Kína bætist í hóp bílastórveldanna í Asíu eins og Kínverjar vissulega stefna að, þá verða þessi 67 skip ekki nóg fyrir félögin tvö.