Mahindra að yfirtaka Ssangyong
Suðurkóreski bílaframleiðandinn Ssangyong sem byggði Musso jeppann hér um árið, tilkynnti í gær, fimmtudag, að búið væri að sigta út indverska bílaframleiðslufyrirtækið Mahindra & Mahindra sem heppilegan kaupanda að Ssangyong. Búist er við að Mahindra taki við stjórn Ssangyong í nóvember nk. Hið kóreska fyrirtæki hefur átt í erfiðleikum og mátt súpa marga fjöruna undanfarna mánuði og ár.
Mahindra & Mahindra Ltd keppti á sínum tíma við samlanda sína hjá Tata um að eignast Land Rover og Jaguar en mátti lúta í lægra haldi. En nú virðast þeir hafa orðið ofaná í samkeppni við Nissan-Renault og fleiri um að eiganst Ssangyong.
Kaupsamningur um meirihluta hlutabréfa í Ssangyong verður undirritaður í lok þessa mánaðar og Indverjarnir taka við stjórninni nóvember segir í frétt frá Ssangyong. Ekkert er minnst á það hvert kaupverðið sé, en sjálfsagt er það flókið matsatriði þar sem vegast á eignir, skuldir, gjöld og tekjur.
Mahindra fær með kaupunum aðgang að dreifingar- og sölukerfi Ssangyong og 1.300 sölustöðum vörumerkisins um allan heim. Það mun vafalaust auðvelda dreifingu á eigin bílum Mahindra sem framleiðir bæði atvinnubíla, fólksbíla og jeppa. Fyrir á Mahindra auk þess stóran hlut í indverska rafbílaframleiðandanum Reva og hefur einnig nýlega eignast hlut Renault í verksmiðjunni sem framleiðir Logan í Indlandi.
Kínverska bílafyrirtækið SAIC Motor Corporation hefur undanfarið ráðið SsangyongSótt var um greiðslustöðvun í byrjun síðasta árs til að fá ráðrúm til að endurskipuleggja fyrirtækið. Í kjölfarið fóru starfsmenn í verkfall sem stóð í tvo mánuði sem bætti nú ekki ástandið.
Á fyrstu sjö mánuðum þessa árs hafa selst samtals um 44 þúsund Ssangyong bílar.