Málmsvampur
Svampmálmur hljómar efalaust eins og einhver vitleysa og bull. Svo er þó alls ekki. Svampmálmur er raunverulegur og nú nýlega hefur bandarískur vísindamaður fundið upp og þróað mjög sterkan málmsvamp sem getur „gleypt í sig“ gríðarlega mikil högg.
Rúmmál málmsvampsins getur þannig við högg minnkað um allt að 80 prósent frá upphaflegri stærð en nær aftur upphaflegri lögun sinni þegar höggið er afstaðið. Notkunarmöguleikar þessa efnis eru óteljandi en kostir þess að fella slíkan málmsvamp í yfirbyggingar bíla til að draga úr áreksturshöggum og vernda þannig ökumann og farþega eru augljósir. Auk þess að fella málmsvampinn inn í yfirbyggingu bíla má hugsa sér að nýta hann til að dempa högg á hús og húsgrunna í jarðskjálftum og nota hann í hlífðarfatnað og hjálma fyrir mótorhjólamenn, svo dæmi séu tekin af handahófi.
Dr. Afsanei Rabiei með málmsvampstykki í höndunum. |
Vísindamaðurinn sem hefur fundið þennan merkilega málmsvamp upp er dr. Afsanei Rabiei sem starfar við ríkisháskóla Norður Karólínuríkis. Hún segir í samtali við upplýsingavefinn Inhabitat að tilraunir á rannsóknarstofu staðfesti að þessi nýi málmsvampur búi yfir miklu hærra hlutfalli styrks miðað við efnisþéttleika en aðrir málsvampar og annarskonar „demparar“ sem gerðir eru til að draga úr hverskonar árekstrarhöggum. Ef bíll með svona málmsvampi bak við stuðarann væri ekið á vegg á 45 km hraða yrðu áhrif árekstursins á fólkið í bílnum svipuð og ef venjulegum bíl væri ekið á steinvegg á 8 km hraða.