MAN vill eignast Scania
12.10.2006
Flest bendir til þess að þýska vörubílaframleiðslufyrirtækið MAN eignist senn sænsku vörubílaverksmiðjuna Scania. MAN (sem stendur fyrir Maschinenfabrik Augsburg-Nürnberg eða vélaverksmiðjan í Augsburg- Nürnberg) hefur undanfarna daga keypt upp á almennum hlutabréfamörkuðum 14.27 prósent í Scania.
Áður hafði MAN gert öðrum stærsta hluthafanum í Scania tilboð í 11,5% hlut hans. Þessi hluthafi er fjárfestingafélagið Investor AB sem er í eigu Wallenberg fjölskyldunnar sænsku. Wallenbergar höfnuðu tilboði MAN og sögðu í fréttatilkynningu að tilboðið hefði ekki verið í samræmi við raunvirði Scania, en tilboðið var upp á 47,73 evrur á hlut . Áður hafði stjórn Scania hafnað yfirtökutilboði MAN í Scania, sem hljóðaði upp á 9,6 milljarða evra.
Stærstu hluthafarnir í Scania nú eru MAN sem á orðið 14,27%, Investor AB 11,5% og Volkswagen á 18,7%. Sá rúmi helmingur sem út af stendur er í mjög dreifðri eigu. Til dæmis um það þýðir 18,7% hlutur Volkswagen atkvæðisrétt upp á 34%.
Stjórn Volkswagen er umhugað um að sameining MAN og Scania verði að veruleika. Þar sem VW á einnig 15% hlut í MAN hefur stjórn VW mælst til þess við stjórnir MAN og Scania að þær klári sameiningarferlið á næstu fjórum vikum.
Scania hefur gengið vel undanfarið og International Herald Tribune segir að bókhaldstölur þriðja ársfjórðungs þessa árs (sem enn hafa ekki verið birtar) muni sýna að hagnaður hafi vaxið með ágætum á árinu og sé um 1,3 milljarðar sænskra króna eftir fyrstu átta mánuði ársins en hafi verið 825 milljónir SKR á tíma í fyrra.