Margir gleyma loftþrýstingnum
Þegar ekið er með of lítið loft í hjólbörðunum hefur það í för með sér meiri eldsneytiseyðslu og hjólbarðarnir slitna mun fljótar en ella og aksturseiginleikar bílsins versna. Ítrekaðar kannanir á Norðurlöndunum sýna að fólk hugsar almennt lítið um dekkin og hvort loftþrýstingurinn í þeim sé réttur.
Dönsk könnun sem gerð var á vegum olíufélagsins Q8 í Danmörku sl sumar sýnir að færri konur en karlar hugsa um að hafa réttan loftþrýsting í dekkjunum. Könnun Q8 fór þannig fram að starfsmenn félagsins mældu ókeypis og leiðréttu loftþrýsting í bílum þeirra sem komu inn á stöðvar félagsins í einn dag. Í ljós kom að 77 prósent ökumanna voru með rangan og mismikinn þrýsting í dekkjum bíla sinna. Í 55 prósentum tilfella var kona við stýrið.
Markaðsstjóri Q8 segir í samtali við Berlingske Tidende að rannsóknin hafi verið gerð stuttu eftir sameiginlegu landsátaki hjólbarðagreinarinnar og danska umferðarráðsins í júní sl. lauk. Í átakinu var rekinn mikill áróður fyrir mikilvægi hjólbarðanna og því að vera með góða hjólbarða undir bílnum og með réttum loftþrýstingi. Því hefðu Q8 menn vænst þess að ástandið væri betra en í ljós kom. Það bendi því ýmislegt til þess að dönskum ökumönnum sé nokkuð sama um hvort loftþrýstingurinn sé réttur eða ekki.
Rannsóknin leiddi í ljós að danskir ökumenn athuga og mæla loftþrýstinginn allt of sjaldan. Skynsamlegast er að mæla þrýstinginn í hvert sinn sem tekið er eldsneyti en tvisvar í mánuði er nauðsynlegt og einu sinni í mánuði er algert lágmark. Of lítið loft í dekkjunum getur þýtt sex prósent meiri eldsneytiseyðslu miðað við að loftþrýstingurinn sé réttur og í samræmi við fyrirmæli framleiðanda bílsins.
Fyrirmæli um réttan loftþrýsting er að finna í handbók bílsins og oftast nær einnig á spjaldi innan á dyrastafnum ökumannsmegin.