Markaðshlutdeild nýorkubíla í Noregi 95%
Nýskráningar fólksbifreiða í Noregi í febrúar voru 8.949 sem er 35,9% aukning samanborið við slakan febrúar á síðasta ári. Því er spáð að nýskráningar í Noregi verði 135 þúsund á þessu ári.
,,Þó að aukningin í skráningarhraða líti vel út, erum við enn bara á leið að eðlilegu stigi í kringum 140.000 - 150.000 bíla á ári," segir Øyvind Solberg Thorsen framkvæmdastjóri hjá Upplýsingaráði fyrir umferð á vegum í Noregi. Athygli vekur næstum helmingsfækkun í Tesla miðað við febrúar í fyrra.
Nýir bílar í Noregi snúast nánast eingöngu um rafmagnsknúna bíla, hreina rafbíla, tengiltvinn og hybrid. Markaðshlutdeild þessara bíla virðist hafa fest sig í 95%.
Söluhæsti bíllinn á fyrstu tveimur mánuðum ársins í Noregi er Toyota bZ4X, alls 1.762 bílar. Volkswagen ID.4 er í öðru sæti með 1.342 bíla og Nissan Ariya í þriðja sæti með 1.171. Það sem af er árinu, janúar og febrúar, eru nýskráningar fólksbifreiða í Noregi alls 18.292.
Þess má geta að nýskráningar fólksbifreiða á Íslandi á fyrstu tveimur mánuðum ársins voru alls 1.251. Rafbílar, tengiltvinnbílar og hybrid voru með 82% hlutdeild.