Markaðsrannsókn á olíumarkaðinum á lokametrunum
Markaðsrannsókn Samkeppniseftirlitsins sem hófst í júní 2013 er nú á lokametrunum. Vinna við frummatsskýrslu stendur yfir og er hennar að vænta í nóvember nk.
Í frétt á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins segir: „Markaðsrannsókn er nýtt form rannsóknar, sem felur í sér athugun á því hvort grípa þurfi til aðgerða gegn aðstæðum eða háttsemi sem koma í veg fyrir, takmarka eða hafa skaðleg áhrif á samkeppni almenningi til tjóns. Byggir rannsóknin á c-lið 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga, en ákvæðið heimilar Samkeppniseftirlitinu að grípa til ýmis konar aðgerða til að ryðja úr vegi samkeppnishindrunum, þótt þær stafi ekki af brotum á samkeppnislögum.“
FÍB fagnar þessari rannsókn á þeim fákeppnismarkaði sem innflutningur og sala elsdneytis er hér á landi. Frá því að rannsóknin hófst hafa veigamiklar breytingar orðið á olíumarkaðinum og fleiri eru í sjónmáli eins og t.d. þær að bandaríska smásölukeðjan (kaupfélagið) Costco og jafnvel fleiri aðilar, hyggjast hefja eldsneytissölu á Íslandi. Eldsneytisafgreiðsla Costco verður við fyrirhugaða verslun Costcoí Garðabæ. Vísir greinir frá því í dag að Kaupás sé einn þessara aðila.
Þá hefur sú breyting orðið á íslenska olíumarkaðinum að nú kemur allt samgöngueldsneyti til Íslands frá aðeins einum birgja, Statoil. Eldsneytinu er skipað upp í birgðastöð Olíudreifingar og Skeljungs í Örfirisey í Reykjavík. Sterkur orðrómur er um að Olíubirgðirnar í Örfirisey séu á hverjum tíma eign Statoil. Líklegt má telja að upplýsingar um þetta verði að finna í frummatsskýrslunni væntanlegu.