Maserati jeppi
Ítalska lúxusmerkið Maserati sem er hluti Fiat-Chrysler samsteypunnar sýnir sinn fyrsta jeppling á bílasýningunni í Genf eftir rúma viku. Framleiðslan er hafin á bílnum og salan hefst með vorinu. Aðdragandinn er búinn að vera langur því að 13 ár eru síðan Maserati sýndi fyrstu frumgerð jeppa/jepplings og síðan af og til þar til að nú. Gerðarheiti nýja bílsins er Levante.
Levante er fyrsti jepplingurinn eða crossover-bíllinn í 100 ára sögu Maserati og talið er að framtíð vörumerkisins muni ráðast af gengi hans á mörkuðum. Enn sem komið er hafa litlar upplýsingar verið gefnar um vélargerðir og vélarafl en að öðru leyti hefur komið fram að undirvagninn er ættaður frá Jeep og framleiðslan er í Mirafiori-verksmiðju Fiat á Ítalíu en ekki í Jeep verksmiðjunum í Michigan eins og upphaflega var áætlað. Rafeindastýrð loftfjöðrun verður í öllum undirgerðum Levante sem og sítengt fjórhjóladrif og átta hraða sjálfskipting.