Maybach hættir
Maybach lúxusbílamerkið í eigu Daimler (Mercedes) hefur verið lagt niður og framleiðslu á þessum ofurlúxusvögnum hefur verið stöðvuð. Þar með lýkur 103 ára sögu bíltegundar sem hófst árið 1909 þegar Wilhelm Maybach stofnaði vélasmiðju sína. Sú saga er þó langt í frá samfelld því að starfsemi Maybach stöðvaðist í stríðslok árið 1945 og hófst ekki á ný fyrr en árið 1997 þegar Daimler hóf framleiðslu á rándýrum ofur-lúxusbílum.
Það varð sannarlega ekki ferð til fjár, því að tap var alla tíð á rekstrinum. Kaupendur reyndust allt of fáir og framleiðslan því hvergi nærri nóg til að rísa undir þróun og nýsköpun. En hjá Daimler skilur Maybach þó eftir sig tómarúm, sem ætlunin er að fylla með nýrri kynslóð ofurlúxus-Benz bíla af S-línunni. Þeir Maybach bílar af árgerð 2012 sem búið var að framleiða virðast allir vera gengnir út því að í öllum pöntunar- og verðlistum frá Daimler stendur að Maybach sé „discontinued“ eða ekki til lengur.
Það var á bílasýningunni í Frankfurt árið 1997 sem fyrstu nútíma-Maybach bílarnir voru frumsýndir. Mikið var gert úr lúxusnum og dýrðinni í kringum bílinn þar og voru bílarnir sýndir í sérstöku horni sýningarsvæðis Mercedes. Þar stóðu þeir afgirtir og tröllvaxnir öryggisverðir gættu þess að enginn gæti nálgast þá, gæti snert þá og hvað þá sest inn í þá til að máta sig við sætin og innréttingarnar. Tíðindamaður FÍB var á staðnum meðan sýningin var einungis opin blaða- og fréttamönnum og leitaði eins og fleiri eftir því að fá að skoða bílinn nánar en fékk ekki. Öllum slíkum beiðnum var svarað neitandi og litaðist umfjöllun fjölmiðla um þennan nýja bíl mjög af því og var ekki jákvæð.
Þau 16 ár sem framleiðslan stóð náði salan aldrei neinu flugi þótt ýmislegt væri reynt. Síðasta tilraunin var gerð í tengslum við 125 ára afmæli Mercedes Benz en þá var kynnt sérstakt afmælismódel; Maybach Edition 125 á bílasýningunni í Frankfurt. En það hafði engin áhrif. Afmælismódelið varð aðeins síðasta dauðateygjan.
Stofnandinn; Wilhelm Maybach hóf feril sinn í bílaiðnaðinum hjá Daimler og stýrði þar tækniþróunarmálum um skeið. Hann hætti hjá Daimler árið 1907 og stofnaði eigin smiðju tveimur árum síðar ásamt syni sínum Karli. Feðgarnir voru hugfangnir af fluginu og einbeittu sér fyrstu árin að því að smíða flugvélamótora. Í lok fyrri heimsstyrjaldar árið 1918 hófu þeir svo að byggja bíla. Fyrsti raðframleiddi Maybach bíllinn kom svo fram árið 1921 og hét W3. Framleiðslan gekk vel og Maybach bílar þóttu traustir, öflugir og hraðskreiðir og urðu einskonar einkennisbílar valdamanna, auðmanna og frægðarfólks. Þegar seinna stríðið braust út árið 1939 lagðist bílaframleiðslan niður og við tók framleiðsla hergagna.
Bílaframleiðsla hófst ekki á ný hjá Maybach eftir að stríðinu lauk árið 1945. Árið 1960 keypti Mercedes Maybach verksmiðjuna og vörumerkið með, en bílaframleiðsla hófst þó ekki fyrr en á 10. áratuginum sem fyrr segir. Þó þreifuðu menn fyrir sér og sýndu t.d. frumgerð bíls sem greinilega var settur til höfuðs Rolls Royce og Bentley árið 1997. Nokkrar fleiri frumgerðir voru svo sýndar á ýmsum stórum bílasýningum næstu árin uns framleiðslugerðin; Maybach 57 birtist og skömmu síðar Maybach 62. Í raun var þetta einn og sami bíllinn tæknilega séð, nema hvað annar var 5,7 metra langur en hinn 6,2 m.
Kaupenda-markhópurinn var fyrst og fremst auðugir Bandaríkjamenn sem á 10. áratuginum sóttust mjög eftir evrópskum lúxusbílum. En það brást. Best gekk salan árið 2004 en þá seldust á heimsvísu alls 244 Maybach bílar en salan varð eftir það lengst af þetta 120-150 bílar árlega. Segja má því að framleiðslunni hafi verið sjálfhætt.