Mazda 2 er bíll ársins í Danmörku
05.10.2007
Smábíllinn Mazda 2 hefur verið valinn bíll ársins í Danmörku af félagi danskra bílablaðamanna. Lokavalið fór fram sl. miðvikudag á aksturssvæðinu Jyllands Ringen sem er í eigu FDM; systursamtaka FÍB. Fimm efstu í valinu urðu eftirfarandi bílar. Fjöldi þeirra stiga sem bílarnir hlutu eru í svigum.
1 Mazda 2: (206)
2 Kia Ceed: (181)
3 Ford Mondeo: (169)
4 Fiat Bravo: (135)
5 Peugeot 308: (84)
Mazda 2 er ný bílgerð og kemur á markað í Danmörku í síðari hluta þessa mánaðar. Bíllinn er eingöngu fimm dyra og í Danmörku mun grunngerðin kosta um 1,6 m. kr. Grunngerð Mazda 2 er með 1,3 l bensínvél sem eyðir 5,4 l á hundraðið í blönduðum akstri. Þrjár vélargerðir verða í boði, allar bensínvélar. Þær eru 75, 86 og 103 hö. Dísilvélar eru ekki í boði.
Mazda er ágætlega búinn öryggisbúnaði og ESC stöðugleikabúnaður er í honum. Bíllinn hefur ekki enn verið árekstursprófaður hjá EuroNCAP. Það verður gert undir lok ársins.
Þeir sem útnefna bíl ársins í Danmörku eru 31 manns hópur úr félagi bílablaðamanna. Af þeim hópi eru fjórir frá Motor sem er félagsblað FDM. Hópurinn veitti Kia sérstaka viðurkenningu fyrir þann góða viðurgerning við viðskiptavini sína að veita þeim sjö ára framleiðsluábyrgð á nýjum Kia-bílum.
Um þrjú þúsund lesendur viðskiptavefs dagblaðsins Berlingske Tidende eru greinilega ósammála vali bílablaðamannanna því að meðal þeirra hlaut Skoda Fabia fyrsta sætið, Kia cee´d annað og Ford Mondeo hið þriðja.