Mazda sparneytnasta tegundin í USA
Bandaríska umhverfisverndarstofnunin EPA (Environmental Protection Agency) birtir árlega tölulegar upplýsingar um bensíneyðslu bíla og meðaleyðslu einstakra bílategunda. Á nýjasta listanum sem nú hefur verið birtur er Mazda sparneytnasta bíltegundin í Bandaríkjunum – þriðja árið í röð. Árangur Mazda er rakinn til svonefndra Skyactive bensínvéla sem eru sérstakar fyrir mjög hátt þjöppunarhlutfall og góða orkunýtni sem leiðir til óvenju lítillar eyðslu.
Þær aðferðir sem EPA notar við mælingar á eldsneytiseyðslu þykja endurspegla vel eyðsluna í venjulegri almennri notkun bílanna og mun betur en þær aðferðir beitt hefur verið í Evrópu samkvæmt mælingastaðlinum NEDC. NEDC mælingarnar hafa verið harðlega gagnrýndar fyrir það að vera mjög úr takti við eyðslu bílanna í raunverulegri daglegri notkun. Brugðist verður við því með því að taka upp nýjan mælingastaðal innan tíðar. Hann á að færa hinar opinberu eyðslutölur nær raunveruleikanum.
Samkvæmt nýju eyðslutölunum frá EPA var meðaleyðsla Mazdabíla í Bandaríkjunum árið 2014 8 lítrar á hverja ekna 100 km. Mazda mældist eyðslugrennsta bíltegundin í Bandaríkjunum fyrst árið 2012 og aftur 2013, Milli áranna 2013 og 2014 dróst þessi meðal eyðslutala saman um 5%. Hvað varðar árið 2015 sem senn er á enda benda bráðabirgðatölur EPA til þess að meðaleyðsla Mazdabíla hafi enn minnkað eða niður í 7,8 lítra á hundraðið. CO2 útblástursgildið hefur einnig lækkað: Árið 2014 var það 188 g/km, en var 183 g/km samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum fyrir 2015. Til samanburðar þá var meðalgildi CO2 útblásturs allra bandarískra fólksbíla 227 g/km árið 2014 og meðal bensíneyðslan var 9,7 l á hundraðið.
Hin svonefnda Skyactive véltækni Mazda er sérstök að því leyti að í stað þess að minnka sprengirými vélanna og setja við þær túrbínur sem þrykkja auknu lofti inn í brunahólf vélanna til að auka afl og orkunýtni þeirra og ennfremur að fara út í tvinntækni sem felst í því láta bruna- og rafhreyfla vinna saman við að knýja bílinn áfram, hefur Mazda farið þveröfuga leið með stærri brunahólfum og hækkuðu þjöppunarhlutfalli. Með þessu hefur Mazda náð þeim árangri að bæta stórlega sparneytnina og nýtingu orkunnar í eldsneytinu.
Fyrsta kynslóð Skyactiv-bensínvélanna kom á markað 2012. Orkunýting þeirra var um 30 prósent betri en nýtni fyrri Mazda bensínvéla með ámóta afl. Senn er næsta kynslóð Skyactive véla væntanleg og er munurinn á henni miðað við fyrstu kynslóðina hvað orkunýtni varðar, sagður verða svipaður eða hátt í 30 prósent.